Dreymir um örgeimför til Alpha Centauri

Júrí Milner heldur á lofti frumgerð af örgeimfari þegar þeir …
Júrí Milner heldur á lofti frumgerð af örgeimfari þegar þeir Stephen Hawking kynntu verkefni sitt í New York í gær. AFP

Floti agnarsmárra geimfara gæti haldið til Alpha Centauri, næstu stjörnu utan sólkerfis okkar innan einnar kynslóðar ef draumur stjarneðlisfræðingsins Stephens Hawking og rússneska auðkýfingsins Júrí Milner verður að veruleika. Þeir kynntu verkefnið í gær en mörg ljón standa í vegi þess.

Alpha Centauri er í um 4,3 ljósára, eða um 40 milljón milljón kílómetra, fjarlægð frá jörðinni. Með núverandi tækni tæki það um 30.000 ár að koma geimfari þangað. Hawking og Milner vilja hins vegar stytta ferðatímann niður í aðeins um þrjátíu ár. Þeir kynntu þau áform sín opinberlega í gær en Milner ætla að leggja hundrað milljón dollara til verkefnisins sem nefnist Starshot.

Hugmyndin byggir á því að beisla ljós til þess að fleyta geimfari alla leiðina til þessarar nágrannastjörnu okkar. Sú hugmynd er ekki ný af nálinni en Planetary Society í Bandaríkjunum vinnur nú meðal annars að tilraunaverkefninu Lightsail þar sem nokkurs konar segl er notað til að draga örlítið geimfar áfram með orku sólvindsins.

Þarf að ná 160 milljón kílómetra hraða á klukkustund

Til þess að komast til Alpha Centauri innan einnar kynslóðar þarf geimfarið hins vegar að ná um 160 milljón kílómetra hraða á klukkustund. Hraðskreiðustu geimför sem menn hafa smíðað fram að þessu hafa mest náð nokkra tuga þúsunda kílómetra hraða á klukkustund. Sólvindurinn er ekki nándar nægilega öflugur til að koma geimfari á slíkan hraða.

Lausn þeirra félaga er sú að smíða agnarsmá geimför, aðeins stærri en frímerki, sem yrðu útbúið örþunnu segli. Gríðarlega öflugur leysigeisli á jörðu niðri yrði síðan notaður til þess að „blása“ í segl örgeimfaranna og stefna þeim til Alpha Centauri. 

Hugmyndin hljómar fjarstæðukennd en er í kenningunni möguleg. Hópur vísindamanna sem Hawking og Milner fengu til að meta hugmyndina telur að með rannsóknum og þróunarvinnu verði hægt að smíða geimför af þessu tagi.

Áformin byggja hins vegar á því að hraðar tækniframfarir eigi sér stað á næstu árum og áratugum, meðal annars í örtækni sem geri þetta mögulegt. Mikið vatn þarf að renna til sjávar áður en það verður hægt því í dag er tæknin ekki til staðar til að smíða nægilega öflugan leysigeisla, seglin eða geimförin sjálf.

Verðum að dreifa okkur á meðal stjarnanna

Hawking segir að það séu nokkuð góðar líkur á því að reikistjörnu sem líkist jörðinni sé að finna á braut um Alpha Centauri. Rannsóknir frá jörðu niðri á næstu tveimur áratugum muni veita mönnum meiri vitneskju um sólkerfið.

„Ef við ætlum að lifa af sem dýrategund þá verðum við á endanum að dreifa okkur á meðal stjarnanna,“ sagði hann þegar verkefnið var kynnt.

Milner er einnig bjartsýnn á verkefnið.

„Skilaboðin sem Stephen Hawking og ég viljum senda er að í fyrsta skipti í sögunni er þetta markmið sem hægt er að ná. Við getum staðið upp og talað um það. Fyrir fimmtán árum hefði ekki verið glóra í því að fjárfesta í þessu. Núna höfum við farið yfir tölurnar og það er glóra í því,“ sagði Milner.

Frétt BBC

Frétt Washington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert