Velgengni SpaceX, geimferðafyrirtæki Elons Musk, með að lenda hlutum eldflauga sinna heldur áfram. Snemma í morgun tókst því að lenda fyrsta stigi Falcon 9-eldflaugar á pramma í Atlantshafi eftir að hún hafði skotið japönsku gervitungli á loft. Þetta er annað skiptið sem slík lending tekst.
Eldflauginni var skotið á loft kl. 5:21 að íslenskum tíma í morgun en farmur hennar var fjarskiptagervihnöttur japanska fyrirtækisins SKY Perfect JSAT. Henni er skipt í tvö stig og eftir að fyrra stigið var skilið frá því seinna hrapaði það aftur niður til jarðar.
Verkfræðingar SpaceX höfðu ekki gert ráð fyrir að geta lent fyrsta stiginu heilu og höldnu vegna þessu hversu hratt það hrapaði en lendingin gekk á endanum fullkomlega.
Tilgangurinn með því að lenda eldflaugarhlutanum er að draga stórlega úr kostnaði við geimskot með því að endurnýta eldflaugarnar. SpaceX tókst að lenda fyrsta stigi Falcon 9-eldflaugar á fjarstýrðum pramma á hafi úti í fyrsta skipti í síðasta mánuði.