Sýnir mátt endurnýjanlegrar orku

Solar Impulse 2 á flugi yfir pýramíndunum í Gisa í …
Solar Impulse 2 á flugi yfir pýramíndunum í Gisa í Egyptalandi í morgun. AFP

Ef hægt er að fljúga flugvél umhverfis jörðina á sólarorkunni einni saman sýnir það heiminum hvað hægt er að gera á jörðu niðri með endurnýtanlegri orku. Þetta segir Jón Björgvinsson, myndatökumaður við sólarknúnu flugvélina Solar Impulse 2, sem er að ljúka ferðalag sínu umhverfis jörðina.

Jón er staddur í Kaíró þar sem sólarfleyið lenti snemma í morgun. Hún lagði af stað í næstsíðasta legg ferðalagsins frá Sevilla á Spáni á mánudag. Sjálft ferðalagið hófst í Abú Dabí 9. mars í fyrra. 

„Þá erum við komin ansi nálægt lokaáfanganum sem er Abú Dabí. Hann er kannski svona tveir dagar í viðbót. Þetta fer alltaf eftir aðstæðu, veðri aðallega. Veðrið hér virðist vera nokkuð gott þannig að það þarf bara að klára skoðun á vélinni eftir tiltölulega langt flug. Svo gæti þetta bara verið um næstu helgi,“ segir Jón um framhaldið.

Komist vélin aftur af stað þá í lokalegginn ætti hnattferðinni að ljúka fyrir mánaðamótin. Það væri þá í fyrsta skipti sem flugvél er flogið hring í kringum jörðina á sólarorku.

Nota tæknina í dróna

Jón hefur verið tengdur Solar Impulse-verkefninu undanfarin tíu ár en hann starfar sem kvikmyndatökumaður fyrir hnattferðina sem hófst í mars í fyrra. Upphaflega stóð til að ljúka ferðinni í lok síðasta sumars en babb kom hins vegar í bátinn yfir Kyrrahafi þegar rafhlöður vélarinnar stiknuðu. Sat hún föst á Havaí frá því í júlí í fyrra þangað til í apríl.

Töluverður hópur starfar í kringum Solar Impulse. Jón segir að auk flugmannanna tveggja sem skiptast á að fljúga vélinni komi um 150 manns að verkefninu. Um fjörutíu manns fylgi vélinni allan tímann, þar á meðal verkfræðingar, fjölmiðlamenn og myndatökumenn eins og hann sjálfur. Sonur Jóns, Daníel, hefur einnig unnið við verkefnið en hann er rafmagnsverkfræðingur.

Feðgarnir Daníel Jónsson (t.v.) og Jón Björgvinsson (t.h.) á flugvelli …
Feðgarnir Daníel Jónsson (t.v.) og Jón Björgvinsson (t.h.) á flugvelli í Mandalay í Búrma.

Þá starfar álíka stór hópur við stjórnstöð leiðangursins sem er staðsett í Mónakó en Albert fursti er einn bakhjarla verkefnisins. Í Sviss er svo hópur verkfræðinga sem eru til taks ef hluti vantar í vélina.

„Þeir eru reyndar byrjaðir þar á næsta verkefni. Þeir ætla að nota alla þessa þekkingu sem hefur skapast til að byggja dróna sem getur verið lengi á lofti eins og mörg fyrirtæki eru reyndar að gera núna. Það er verið að færa þá verkfræðinga yfir í það verkefni þegar þetta er búið en það væri þá viðskiptaverkefni,“ segir Jón og vísar til tilrauna fyrirtækja eins og Google með loftbelgi og dróna sem gætu komið í staðinn fyrir dýra gervihnetti og séð afskekktum og fátækum heimshlutum fyrir nettengingum.

Vissu ekki að það væri óframkvæmanlegt

Solar Impulse-verkefnið er hins vegar frumkvöðlaverkefni sem á að sýna heiminum fram á hvað hægt er að gera með endurnýtanlegri orku og orkusparnaði.

„Sýna fram á það að ef hægt er að fljúga flugvél í kringum hnöttinn á sólarorkunni einni þá hlýtur náttúrulega að vera hægt að gera ýmislegt enn þá stórtækara á jörðu niðri þar sem þyngdin skiptir minna máli en þarna uppi,“ segir Jón.

Frétt mbl.is: „Það má ekkert út af bregða“

Verkefnið sé jaðarverkefni og í það hafi þurft að setja alla þá tækni sem völ er á í dag til að það sé framkvæmanlegt.

„Upphaflega ætluðu þeir að fá flugvélaverksmiðjurnar með sér í þetta verkefni en þær sögðu allar að þetta væri óframkvæmanlegt. Það endaði á því að það voru alls konar fyrirtæki önnur sem tengjast ekki flugbransanum sem smíðuðu þessa vél og þau höfðu náttúrulega ekki hugmynd um að þetta væri ómögulegt,“ segir Jón og hlær.

Þannig smíðaði svissneskt skútufyrirtæki trefjaplastgrind flugvélarinnar en það hefur áður framleitt skútur sem hafa tekið þátt í siglingakeppninni Ameríkubikarnum.

Solar Impulse 2 á flugi í síðasta mánuði.
Solar Impulse 2 á flugi í síðasta mánuði. AFP

Auðveldara að taka annan hring

Óvíst er hvað verður um flugvélina þegar og ef hún hefur það á leiðarenda í Abú Dabí. Jón segir að rætt sé um að fljúga henni aftur til Sviss eða setja hana á safn. Það sé hins vegar flókið að koma henni til Sviss þar sem haustið sé farið að nálgast þegar ferðalaginu lýkur.

„Þeir voru að grínast með það að auðveldasta leiðin til Sviss væri bara að fara annan hring. Það væri auðveldara en að fara í öfuga átt, yfir Alpana í mörgum stoppum,“ segir Jón.

Menn dreymi hins vegar um að reyna að fljúga í kringum hnöttinn viðstöðulaust.

„Vélin getur það en það er spurning hvort flugmennirnir treysti sér í það,“ segir hann.

Ákveðið var að reyna það ekki að þessu sinni þar sem þá hefðu flugmennirnir þurft að vera tveir og hún þá þurft að vera mun stærri og þyngri. Þá þyrfti að gera ráð fyrir enn meiri súrefnisbirgðum en nú er. Flugstjórnarklefi vélarinnar er ekki búinn jafnþrýstibúnaði og þá er engin upphitun um borð. Flugmennirnir hafa því þurft að sjúga súrefni úr kút í þunnu loftinu og vera vel dúðaðir í nístingsfrostinu um borð. 

Svissnesku flugmennirnir Bertrand Piccard (t.v.) og Andre Borschberg (t.h.) á …
Svissnesku flugmennirnir Bertrand Piccard (t.v.) og Andre Borschberg (t.h.) á flugvellinum í New York eftir að vélin lauk 70 klukkustunda flugi frá New York. AFP

Borin á höndum í Egyptalandi

Það er þó víst að mikil hátíðarhöld verða þegar og ef vélin kemst á áfangastað. Jón segir að soldánar og emírar hafi boðað komu sína þegar vélin á að lenda í Abú Dabí. 

„Mér skilst að aðalhátíðin eigi að vera í Mónakó. Það ætla allir hóparnir að hittast þar og halda upp á með Alberti fursta og grilla á ströndinni til að fagna þessu,“ segir Jón.

Leiðangurinn hefur vakið mikla athygli hvar sem hann hefur komið við. 

„Egyptar eru uppnumdir yfir því að fá þessa vél því þeim veitir ekki af jákvæðri auglýsingu. Okkur er mjög vel tekið hérna. Við erum alveg borin á höndum hérna á meðan við bíðum eftir vélinni,“ sagði Jón við Mbl.is í gær.

Fram að þessu hafði Jón hins vegar haft aðra reynslu af Egyptalandi en hann var þar sem fréttaritari og myndatökumaður meðan á egypska vorinu stóð fyrir fimm árum.

„Ég hef oftar verið barinn þegar ég kem hingað en það er ágætt að okkur sé vel tekið núna,“ segir Jón og hlær.

Solar Impulse 2 er þakin sólarsellum sem knýja hana áfram.
Solar Impulse 2 er þakin sólarsellum sem knýja hana áfram. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert