Bjóða Pokémon-beitur til að minna á sig

Gísli Einarsson, eigandi verslunarinnar Nexus í Nóatúni.
Gísli Einarsson, eigandi verslunarinnar Nexus í Nóatúni. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta fór í gang klukkan 13 og það er þegar mætt fólk inn í búðina,“ segir Gísli Einarsson, eigandi verslunarinnar Nexus sem selur ýmsan Pokémon-tengdan varning en í dag setti verslunin út svokallaðar beitur (Lures) sem gera það að verkum að fleiri Pokémonar birtast í leiknum Pokémon GO en ella.

Viðskiptablaðið greindi fyrst frá málinu.

„Það er hægt að kaupa beitur fyrir Pokémona í leiknum og leggja beituna á þann stað sem síminn er staðsettur, í hálftíma í senn,“segir Gísli en verslunin Nexus er nú skráð í leikinn til þess að leggja út beitur.

„Við verðum með þetta í gangi frá 13-19 og sjáum hvað gerist. Eins og er getur hver sem er lagt út beitur, og það er aldrei að vita nema þetta endi með offramboði. En við sjáum hvað gerist í dag,“ segir Gísli.

Verslunin hefur selt Pokémon-tengdan varning frá því að leikurinn kom út árið 2000. „Við erum að þessu meðal annars til að vinna á okkur sem Pokémon-verslun, og höfum verið í 16 ár. Salan á Pokémon-tengdum varningi hefur aukist að undanförnu í tengslum við útgáfu leiksins og erum við með meiri varning á leiðinni til að svara eftirspurn.“

Verslunin Nexus hefur selt Pokémon-varning í 16 ár.
Verslunin Nexus hefur selt Pokémon-varning í 16 ár. mbl.is/Styrmir Kári

„Það hefur þó alltaf selst talsvert af Pokémon-varningi. Það var auðvitað mikið æði þegar Pokémon fór af stað en það hefur aldrei horfið alveg. Við seljum dót, boli, dúkkur, skartgripi en aðallega höfum við verið að selja gömlu kortaspilin,“ segir Gísli og bætir við að enn séu margir sem spili gamla kortaspilið. 

„Við erum einmitt með Pokémon-mót í gangi hjá okkur klukkan 15. Við erum með slík mót á hverjum föstudegi þar sem við bjóðum líka upp á kennslu. Það sem er skemmtilegt nú er að fólk á öllum aldri er að spila leikinn. Það voru margir sem spiluðu þetta fyrir 16 árum síðan og er það fólk orðið fullorðið í dag. Síðan eru líka núna að koma nýir spilarar,“ segir Gísli.

Tækifæri fyrir fyrirtæki

Færst hefur í aukana að fyrirtæki, verslanir, veitingastaðir og kaffihús séu að kaupa beitur til þess að bjóða viðskiptavinum. Hægt er að kaupa beitur í gegnum leikinn og hefur einn af þeim sem þróuðu leikinn hjá fyrirtækinu Niantic sagt við Financial Times að hægt verði í framtíðinni að kaupa Pokéstop og Gym auk fleiri aukahluta í leiknum. Talið er að það gæti orðið afar góð tekjulind fyrir eigenda leiksins.

Því hefur verið haldið fram að McDonalds eigi meðal annars í viðræðum við fyrirtækið til að kaupa Pokéstop og Gym á veitingastaði McDonalds. 

Eins og er geta Pokéstop birst hvar sem er í leiknum og hafa sérfræðingar kallað eftir því að forritarar leiksins bæti við þeim möguleika að afnema Pokéstop á stöðum þar sem fólk vill fá að vera í friði, eða þar sem spilarar leiksins eru ekki velkomnir, eins og á listasöfn og á einkalóðum.

Sjá frétt Daily Mail.

Pokémon Go hefur farið um eins og eldur í sinu.
Pokémon Go hefur farið um eins og eldur í sinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka