Sólarknúna flugvélin Solar Impulse lauk í dag sögulegri ferð sinni umhverfis jörðina. Þetta er í fyrsta sinn sem flogið er í kringum hnöttinn okkar á vél sem eingöngu er knúin orku frá sólu. Ferðin var farin til að kynna hvað hægt er að gera með endurnýjanlegri orku.
Mikil fagnaðarlæti brutust út er vélin lenti við sólarupprás í Abú Dabí eftir að hafa lokið síðasta legg flugsins sem hófst 9. mars í fyrra.
Í flugstjórnarklefanum sat svissneski landkönnuðurinn og stjórnandi verkefnsins, Bertrand Piccard. Hann hafði þá flogið samfleytt í 48 klukkustundir frá Kaíró í Egyptalandi, yfir Rauðahafið, eyðimerkur Sádi-Arabíu og Persaflóa.
Solar Impulse var á ferðalaginu flogið 43 þúsund kílómetra leið, þvert yfir fjórar heimsálfur, tvö heimshöf og þrjú innhöf. Vélin var á flugi í 23 daga og ekki einn einasta dropa af eldsneyti þurfti til.
„Framtíðin er hrein, framtíðin ert þú, framtíðin er núna, förum enn lengra,“ sagði Piccard er hann lenti. „Mig langar að biðja ykkur að muna eitt: Þetta er ekki aðeins afrek í flugsögunni, Solar Impulse hefur skráð sig á spjöld orkusögunnar.“
Piccard sagði að nóg væri af lausnum. Tæknin væri fyrir hendi. „Við eigum aldrei að sætta okkur við að heimurinn sé mengaður bara af því að fólk er hrætt við að upphugsa nýjar leiðir.“
Nokkrum klukkustundum áður en Solar Impulse lenti hlóð framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, verkefnið lofi.
„Ég dáist að ykkur og virði fyrir hugrekki ykkar,“ sagði hann. „Þetta er sögulegur dagur, ekki aðeins fyrir ykkur heldur allt mannkynið.“
Solar Impulse hefur stundum verið kölluð „pappírsflugvélin“ en hún fór umhverfis jörðina í sautján áföngum. Piccard og félagi hans, Andre Borschberg, skiptust á að sitja við stýrið.
Borschberg sló flugmet á leiðinni en hann flaug einn samfleytt í 118 klukkustundir frá Nagoya í Japan og til Havaí. Leiðin var 8.924 kílómetra löng.
Vélin er svipuð á þyngd og bíll og vænghaf hennar svipað og á Boeing 747. Hún er búin fjórum sólarknúnum hreyflum og á vængjum hennar eru 17 þúsund sólarrafhlöður. Hún flaug á 80 km meðalhraða á leið sinni um heiminn.
Flugmennirnir þurftu að klæðast sérstökum búningum vegna erfiðra aðstæðna sem gátu skapast í litla flugstjórnarklefanum. Hitastigið gat sveiflast frá -20°C í 35°C hita.
Piccard sagði er hann hóf að þróa verkefnið árið 2003 að hann ætlaði að sýna fram á að hægt væri að „framkvæma hið ómögulega“.
Draumur hans tók lengri tíma en hann ætlaði sér í fyrstu. Ætlunin var að ferðin tæki fimm mánuði, þar af 25 daga á flugi. Vélin var kyrrsett í júlí í fyrra en bilun kom upp í sólarrafhlöðunum. Þá settu vont veður og veikindi flugmannanna einnig strik í reikninginn.
Meðan á fluginu stóð voru flugmennirnir í stöðugu sambandi við verkefnisstjóra í Mónakó. Þar var komið saman teymi veðurfræðinga, vélfræðinga og verkfræðinga sem fylgdist grannt með gangi mála.
Piccard er 58 ára. Hann er geðlæknir að mennt en flaug sitt fyrsta flug um jörðina árið 1999, þá í loftbelg. Hann vissi að síðasti leggur ferðalagsins á Solar Impulse yrði erfiður vegna þess að hitinn yrði mikill. Á sunnudag sagðist hann hafa flogið sleitulaust í tvo sólarhringa og ekki fengið dropa af vatni að drekka. „Ég er mjög þreyttur,“ sagði hann.
En hann sýndi engin merki um þreytu er hann lenti í morgun. „Þetta verkefni var mjög erfitt. Það voru margir sem efuðust um að við myndum ljúka því. Svo fyrir allt teymið þá er þetta frábært en líka fyrir alla þá sem hafa trú á hreinum orkugjöfum,“ sagði Piccard er hann lenti.
Hann segir að stærsta áskorunin hafi verið að fljúga vélinni samfellt í marga daga og nætur þannig að ekki þyrfti að dæla á vélina eldsneyti, því eldsneytið hafi ekki verið fyrir hendi. Hann segir það einnig hafa verið stóra áskorun að sigrast á efasemdaröddum fólks sem sagði að þetta væri ógerningur.
Piccard segist ekki eiga von á því að sólarknúnar flugvélar verði teknar í notkun strax á næstu misserum en hann vonar að verkefnið verði til þess að kraftur verði settur í að þróa notkun sólarorku og annarra hreinna orkugjafa.
„Við trúum því varla að við höfum lokið þessu. Þetta er enn eins og draumur,“ sagði Piccard. „Við Andre höfum flogið til skiptis yfir 40 þúsund kílómetra án eldsneytis og núna er sýnikennslunni lokið. Það þýðir að nú geta aðrir í heiminum tekið þetta skrefinu lengra.“