Bandaríski flugherinn segir að engan hafi sakað þegar eldflaug SpaceX sprakk í loft upp á skotpalli á Canaveral-höfða í dag og engin almannahætta stafi af sprengingunni. SpaceX segir að skotpallurinn hafi verið mannlaus þegar sprengingin varð, í samræmi við verklagsreglur.
Falcon 9-eldflaug SpaceX með ísraelsku samskiptagervitungli sprakk í loft upp á skotpallinum í Kennedy-geimmiðstöðinni í Flórída um kl. 9 að staðartíma. Verið var að gera hefðbundna prófun á hreyfli eldflaugarinnar fyrir geimskot sem fyrirhugað var á laugardag.
Í stuttri yfirlýsingu frá SpaceX segir að óútskýrð bilun hafi átt sér stað við prófunina sem leiddi til þess að bæði eldflaugin og farmurinn glataðist. Enginn hafi verið á skotpallinum eins og vaninn er þegar slíkar prófanir fara fram. Engan hafi því sakað.
Frétt mbl.is: Eldflaug SpaceX sprakk
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem eldflaug SpaceX springur á jörðu niðri. Falcon 9-eldflaug fyrirtækisins sprakk í loft upp skömmu eftir að henni var skotið á loft í júní í fyrra. Farmur hennar var birgðir til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar, en SpaceX er með samning um birgðaflutninga þangað.
Búast má við því að líkt og þá verði gert hlé á frekari geimskotum fyrirtækisins á meðan orsaka sprengingarinnar í dag er leitað.
Statement on this morning's anomaly pic.twitter.com/3Xm2bRMS7T
— SpaceX (@SpaceX) September 1, 2016