Ekki liggur enn fyrir hvað olli mikilli sprengingu í eldflaug SpaceX á skotpalli í Flórída í gær. Farmur hennar var gervitungl sem átti að sjá hluta Afríku sunnan Sahara fyrir netsambandi en það fórst sömuleiðis. Myndbandsupptökur sýna hvernig eldflaugin fuðraði upp í eldhafi.
Elon Musk, eigandi SpaceX, sagði á Twitter í gær að Falcon 9-eldflaugin hefði sprungið þegar verið var að fylla hana með eldsneyti. Upptök hennar virðist hafa verið í súrefnistanki í efra þrepi eldflaugarinnar.
Eldflaugin átti að skjóta fjarskiptagervitunglinu Amos 6 á loft á laugardaginn. Það var í eigu ísraelska fyrirtækisins Spacecom en Facebook ætlaði að nota það til að sjá stórum hluta Afríku sunnan Sahara og afskekktum heimshlutum fyrir netsambandi. Það er liður í Internet.org-verkefni samfélagsmiðilsins. Verðmæti gervitunglsins er talið á bilinu 200-300 milljónir dollara.
Engan sakaði í sprengingunni en skotpallurinn var mannlaus. Hefðbundin prófun á hreyfli eldflaugarinnar var í gangi þegar óhappið átti sér stað.
Áætlanir SpaceX gerðu ráð fyrir sex geimskotum þangað til í janúar á næsta ári. Viðbúið er að þau áform raskist á meðan orsaka sprengingarinnar í gær er leitað. Sérfræðingar segja hins vegar að óhöpp sem þessi séu eðlilegur hluti af því að læra á geimferðir.
Á opinberri Twitter-síðu bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA sagði að sprengingin minnti fólk á að geimferðir væru erfiðar.
„Félagar okkar læra af hverjum sigri og bakslagi,“ sagði NASA.