Fyrsta barnið sem ber erfðaefni þriggja manna, er fætt. Það voru bandarískir vísindamenn sem framkvæmdu aðgerðina. Vísindatímaritið New Scientist greindi fyrst frá málinu í dag.
Í frétt BBC um málið segir að hinn fimm mánaða gamli Abrahim Hassan sé með erfðaefni úr föður sínum og móður en einnig að hluta úr þriðja aðila.
Tæknifrjóvgunin var gerð með þessum einstaka og sögulega hætti til að reyna að koma í veg fyrir að Abrahim litli myndi fá erfðasjúkdóm sem móðir hans er arfberi af.
Sérfræðingar segja að þessi nýja aðferð marki tímamót í læknavísindum og gæti orðið öðrum fjölskyldum hjálp við að koma í veg fyrir að börn þeirra erfi hættulega og sjaldgæfa sjúkdóma.
Í frétt Telegraph um málið segir að vísindamennirnir hafi farið til Mexíkó til að framkvæma tæknifrjóvgunina. Hún sé umdeild en nú lögleg í Bretlandi eftir miklar umræður má þinginu.
Foreldrar Abrahims hafa reynt að eignast barn í um tvo áratugi. Móðir hans, Ibtisam Shaban, er arfberi sjaldgæfs erfðasjúkdóms sem kallast Leigh syndrome. Hann leggst á taugakerfið og er banvænn.
Tæknifrjóvgunin er í einföldu máli sú að frumukjarni var tekinn úr eggi móðurinnar og settur inn í gjafaegg sem kjarninn hafði einnig verið fjarlægður úr. Eggið hefur því bæði erfðaefni móðurinnar og gjafans. Eggið var svo frjóvgað með sæði úr föðurnum. Fimm fósturvísar voru búnir til með þessum hætti en aðeins einn þeirra þroskaðist eðlilega. Sá var settur í leg móðurinnar og níu mánuðum síðar kom Abrahim litli í heiminn.