Halastjörnuheimsókn lýkur með árekstri

Teikning af Rosettu rétt fyrir árekstur við 67P/Churyumov-Gerasimenko.
Teikning af Rosettu rétt fyrir árekstur við 67P/Churyumov-Gerasimenko. ESA/ATG medialab

Eftir að hafa fangað ímyndunarafl jarðarbúa með því að lenda geimfari í fyrsta skipti á halastjörnu lýkur Rosetta-leiðangrinum með brotlendingu á morgun, föstudag. Á tveimur árum við 67P/Churyumov-Gerasimenko hefur Rosetta aflað mikils magns gagna um þessar leifar frá myndun sólkerfisins okkar.

Rosetta-leiðangurinn er metnaðarfyllsti könnunarleiðangur sem evrópska geimstofnunin (ESA) hefur ráðist í. Geimfarinu var skotið á loft árið 2004 og var tíu ár á leiðinni til halastjörnunnar. Á þeim tíma ferðaðist Rosetta sex og hálfan milljarð kílómetra áður en hún komst á braut um halastjörnuna í ágúst árið 2014.

Hápunktur leiðangursins fyrir flesta var þegar litla lendingarfarið Philae hleypti heimadraganum og sveif niður til yfirborðs halastjörnunnar 12. nóvember það ár. Lendingin fór þó ekki alveg eins og stjórnendur geimfarsins höfðu vonast eftir.

Rosettu skotið á loft með Ariane V-eldflaug 2. mars árið …
Rosettu skotið á loft með Ariane V-eldflaug 2. mars árið 2004. Tólf ára leiðangri Rosettu lýkur á föstudag. AFP

Skutlar virka ekki á halastjörnum

Áður en Philae lenti á halastjörnunni voru stjörnufræðingar hreint ekki vissir um hvers lags undirlag væri undir yfirborði halastjörnunnar. Hugmyndin var að skutull myndi tjóðra hana fasta við yfirborðið og stýriflaug þrýsta á móti ef hún skoppaði af því.

Skutullinn og þrýstiflaugin brugðust hins vegar og skoppaði Philae eins og skopparabolti heilan kílómetra upp frá yfirborðinu áður en geimfarið staðnæmdist að lokum upp við klettavegg. Þrátt fyrir þetta lauk Philae skyldustörfum sínum með sóma þangað til að rafhlöðurnar geispuðu endanlega golunni.

Fyrirfram höfðu vísindamenn vonað að hægt yrði að framlengja grunnleiðangur Philae með því að hlaða rafhlöður hennar með sólarorku. Staðsetningin í skugga klettanna þýddi hins vegar að sólarrafhlöðurnar fengu ekki nægilega mikið sólarljós. Sambandið við Philae rofnaði aðfaranótt 15. nóvember.

Þegar halastjarnan var komin nær sólinni og meira sólarljós barst til Philae náðist skammlíft samband við geimfarið sumarið 2015 áður en það kvaddi endanlega.

Allt frá lendingunni vissu vísindamennirnir ekki hvar Philae var nákvæmlega á yfirborðinu. Lendingarfarið kom hins vegar loksins í leitirnar fyrr í þessum mánuði eftir þrotlausa leit Rosettu frá braut um halastjörnuna.

Mynd sem OSIRIS-myndvél Rosettu tók af Philae þegar farið sveif …
Mynd sem OSIRIS-myndvél Rosettu tók af Philae þegar farið sveif niður á yfirborð halastjörnunnar í nóvember 2014. ESA/Rosetta/MPS

Enda með látum

Rosetta sat ekki með hendur í skauti eftir að Philae hafði lokið ætlunarverki sínu. Geimfarið fylgdi halastjörnunni á meðan hún nálgaðist sólina og fjarlægðist aftur síðustu tvö árin og náði fordæmalausum myndum og athugunum á því hvernig virkni þessa íshnullungs breyttist.

Á meðal uppgötvana sem Rosetta hefur gert er að 67P/Churyumov-Gerasimenko sé líklega samsett út tveimur hlutum sem mynduðust hvor í sínu lagi og rákust síðar á. Athuganir á vatnsísnum á halastjörnunni benda til þess að vatnið á jörðinni hafi ekki komið frá hnöttum úr ytra sólkerfinu

Halastjarnan eins og hún kom fyrir augu Rosettu 5. júní …
Halastjarnan eins og hún kom fyrir augu Rosettu 5. júní í fyrra þegar hún nálgaðist sólnánd. ESA/Rosetta/NavCam

„Allt ævintýrið hefur slegið í gegn í augum almennings. Þetta hefur verið mjög jákvætt fyrir evrópsku geimstofnunina en einnig fyrir geiminn sjálfan og vísindin,“ sagði Mark McCaughrean, yfirmaður vísindarannsókna og geimkönnunar hjá ESA í viðtali við Mbl.is í fyrra. Rosetta væri Apollo-leiðangur nýrra kynslóða.

Halastjarnan og geimfarið er nú komin svo langt frá sólinni, rúmlega hálfan milljarð kílómetra frá sólinni, að Rosetta fær takmarkað sólarljós á sólarsellur sínar. Því hefur geta hennar til að knýja sig áfram og senda gögn til jarðar minnkað.

Í stað þess að setja geimfarið í dvala og veðja á þann fjarlæga möguleika að hún gæti vaknað aftur þegar halastjarnan nálgast sólina á ný eftir fjögur ár ákváðu stjórnendur farins að nota tækifærið að rannsaka halastjörnuna í frekara návígi, að því er segir í frétt New York Times.

Bestu myndir sem teknar hafa verið

Síðustu vikur hefur Rosetta því verið þétt í faðmi halastjörnunnar og tekið fjölda nærmynda. Leiðangrinum lýkur á föstudag þegar farinu verður stýrt til lendingar á „höfði“ halastjörnunnar sem er eins og gúmmíönd í laginu.

Á leiðinni vonast menn til þess að ná bestu myndum sem nokkru sinni hafa verið teknar af halastjörnu. Þannig gæti verið hægt að ná myndum úr aðeins fimmtán metra hæð með upplausn upp á nokkra millímetra á díl, að því er segir í frétt vísindaritsins Nature.

Yfirborð halastjörnunnar á mynd Rosettu frá 27. ágúst. Þá var …
Yfirborð halastjörnunnar á mynd Rosettu frá 27. ágúst. Þá var farið aðeins 4,6 kílómetra yfir kjarna halastjörnunnar. Svæðið á myndinni er 143 metrar að lengd og upplausnin er 0,07 metrar á díl. ESA/Rosetta/MPS for OSIRIS Team MPS/UPD/LAM/IAA/SSO/INTA/UPM/DASP/IDA

Áreksturinn verður ekki harður, geimfarið mun ferðast metra á sekúndu, en þar sem Rosetta er ekki hönnuð til að lenda gæti farið stórskemmst. Jafnvel þó að hún lifi áreksturinn af mun áreksturinn virkja skipanir um að farið slökkvi endanlega á sér. Það er gert til að útiloka þá litlu hættu sem væri til staðar á að sendingar á Rosettu truflaði fjarskipti á milli jarðar og geimfara í sólkerfinu. 

Þegar leiðangrinum lýkur geta vísindamennirnir loksins einbeitt sér að fullu að því að leggjast yfir gögnin sem Rosetta og Philae hafa sent til jarðar síðustu tvö árin og aukið skilning manna á halastjörnum og um leið uppruna sólkerfisins. Búist er við því að staðfesting á endalokum Rorsettu berist til jarðar kl. 11:20 að íslenskum tíma á föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka