Kveðja Rosettu með söknuði

ESA missti samband við Rosettu kl. 11:19 að íslenskum tíma …
ESA missti samband við Rosettu kl. 11:19 að íslenskum tíma og var það staðfesting á árekstrinum við halastjörnuna. AFP

Leiðangur geimfarsins Rosettu sem lauk í dag er tvímælalaust einn allra best heppnaði rannsóknarleiðangur evrópsku geimstofnunarinnar (ESA), að mati Sævars Helga Bragasonar, ritstjóra Stjörnufræðivefsins og formanns Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Viðeigandi sé að Rosetta sofi nú svefninum langa á yfirborði halastjörnunnar eins og lendingarfarið Philae.

Endi var bundinn á tólf ára leiðangur Rosettu þegar henni var stýrt til brotlendingar á halastjörnunni 67P/Churyumov-Gerasimenko rétt fyrr hádegi að íslenskum tíma. Geimfarið hafði verið í rúm tvö ár á braut um halastjörnuna og sent Philae til lendingar á yfirborðinu í nóvember árið 2014.

Sævar Helgi segir að rannsóknir Rosettu og Philae undanfarin tvö ár hafi breytt skilningi manna á halastjörnum og uppruna þeirra en þetta var í fyrsta skipta sem geimfar komst á braut um og lenti á halastjörnu.

„Halastjörnurannsóknir eru mjög mikilvægar því þær snerta uppruna sólkerfisins og þar af leiðandi hafa þær áhrif á hugmyndir okkar um tilurð jarðar, uppruna vatns á jörðinni og hlutverk halastjarna í að sá fræjum lífs um sólkerfið. Rosetta uppgötvaði til að mynda flóknar lífrænar sameindir á halastjörnunni og mældi sömuleiðis gerð vatnsins í halastjörnunni sem reyndist gerólík vatni á jörðinni. Það hefur áhrif á hugmyndir manna um hvers vegna jörðin er jafn blaut og raun ber vitni,“ segir Sævar Helgi.

Gúmmíöndin gæti klofnað

 Ekki skemmdi heldur fyrir að 67P er sérstaklega furðuleg og gerólík öðrum halastjörnum sem menn hafa rannsakað í návígi.

„Halastjarnan 67P minnir um margt á gúmmíönd í útliti. Hún virðist hafa höfuð, háls og líkama en á hálsinum eru miklar sprungur sem gætu leitt til þess að halastjarnan klofni í tvennt í framtíðinni. 67P var því líklegast tvær halastjörnur í upphafi sem hafi runnið saman í eina,“ segir Sævar Helgi.

Síðasta myndin sem Rosetta tók af halastjörnunni fyrir áreksturinn, úr …
Síðasta myndin sem Rosetta tók af halastjörnunni fyrir áreksturinn, úr um 51 metra fjarlægð. AFP

Mælingar Rosettu sýna líka að halastjarnan er afar gropin. Um þriðjungur innviða hennar er ís og ryk en um 70% tómarúm.

„Halastjarnan er því nokkurs konar ísruslahaugur sem er mjög laus í sér og „brothættur““, segir Sævar Helgi.

Það hefur einnig komið á óvart að á hálsi halastjörnunnar er ör veðrun eða rof að eiga sér stað sem virðist hafa leitt í ljós frumstæðasta efnið sem halastjarnan er gerð úr. Þetta gæti verið upprunalega byggingarefni halastjarnanna.

Rosettu-leiðangurinn og ekki síst lendingin á halastjörnunni fangaði athygli og ímyndunarafl heimsbyggðarinnar. Óhætt er að segja að blendnar tilfinningar hafi verið hjá verkfræðingum og vísindamönnum ESA í dag þegar honum lauk en sumir þeirra höfðu unnið að verkefninu í hátt í þrjátíu ár.

„Við kveðjum Rosettu með miklum söknuði en hlökkum jafnframt til næstu rannsóknarleiðangra ESA út í sólkerfið,“ segir Sævar Helgi um lok leiðangursins.

Boðið var upp á konfektmola í laginu eins og halastjarnan …
Boðið var upp á konfektmola í laginu eins og halastjarnan 67P í stjórnstöð leiðangursins í Darmstadt í Þýskalandi í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert