Bandaríska geimvísindastofnunin NASA mun hætta öllum loftslagsrannsóknum þegar Donald Trump tekur við sem forseti, að sögn helsta ráðgjafa hans í málefnum stofnunarinnar. NASA eigi þess í stað aðeins að huga að könnun geimsins. Vísindamenn eru verulega uggandi yfir þeim áformum.
Trump hefur sagt að hann telji loftslagsbreytingar vera „gabb“ til að veikja samkeppnisstöðu Bandaríkjanna gagnvart Kína. Bob Walker, helsti ráðgjafi hans í málefnum NASA, segir enga ástæðu fyrir geimvísindastofnunina að gera „pólitískt rétthugsandi umhverfisathuganir“.
Fjárveitingar til jarðrannsóknaáætlunar NASA hafa aukist um helming í valdatíð Baracks Obama fráfarandi forseta. Þeir fjármunir hafa meðal annars runnið til þess að halda úti miklum flota gervitungla sem fylgjast með jörðinni úr geimnum, mæla hækkandi hitastig, aukinn styrk gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum, hopa jökla og íshellna og breytinga á úrkomu og gróðurbeltum.
Þessu vill Walker breyta og flytja verkefni sem tengjast jörðinni til annarra stofnana eins og Haf- og loftslagsstofnunarinnar (NOAA) sem hafa mun minni fjárráð en NASA.
„Mín ágiskun er að það yrðu erfitt að stoppa öll verkefni NASA sem eru í gangi en framtíðarverkefni ættu vissulega að færast til annarra stofnana. Ég trúi því að loftslagsrannsóknir séu mikilvægar en þær hafa orðið mjög pólitískar sem hefur grafið mjög undan vinnunni sem vísindamenn hafa unnið. Ákvarðanir hr. Trump munu byggjast á traustum vísindum, ekki pólitískum vísindum,“ segir Walker við The Guardian.
Kevin Trenberth, yfirvísindamaður hjá NOAA, er einn þeirra vísindamanna sem vinna fyrir alríkisstjórnina sem hafa áhyggjur af áformum nýja forsetans. Það yrði meiriháttar áfall af jarðvísindaáætlun NASA yrði slegin af.
„Við búum á plánetunni jörð og þar er mikið sem eftir er að uppgötva. Það er nauðsynlegt að fylgjast með mörgum hlutum úr geimnum. Upplýsingar um jörðina, lofthjúp hennar og höfin eru bráðnauðsynleg fyrir lífshætti okkar. Geimrannsóknir eru munaður, jarðrannsóknir eru bráðnauðsynlegar,“ segir Trenberth.
Undir þetta tekur Michael Mann, einn þekktasti loftslagsvísindamaður heims við Penn State-háskóla. Hann segir NASA leika lykilhlutverk í rannsóknum á jörðinni og loftslagsbreytingum.
„Án stuðnings NASA yrðu ekki bara Bandaríkin heldur heimurinn allur fyrir miklum skelli þegar kemur að því að skilja hegðun loftslagsins og þeirra ógnana sem stafa af loftslagsbreytingum af völdum manna,“ segir Mann.
Frétt Sunnudagsmoggans: Endalokin fyrir loftslagið?
Jarðrannsóknir NASA tengjast heldur ekki aðeins loftslagsbreytingum. Steve Running, vistfræðingur við Montana-háskóla og formaður jarðvísindanefndar ráðgjafaráðs NASA, segir við Scientific American að jarðrannsóknagervitungl NASA beri líklega ábyrgð á stærstu einstöku framför í nákvæmni veðurspáa undanfarna tvo áratugi.
„Allar pólitískar tilraunir til þess að lama loftslagsvísindi hefðu nærri því örugglega þær óviljandi aukaverkanir að draga úr þróun okkar á betri veðurspám til meðallangs tíma,“ segir Running við vísindaritið.