Cassini strýkur sér upp við hringina

Cassini mun fljúga rétt við ystu brún hringja Satúrnusar næstu …
Cassini mun fljúga rétt við ystu brún hringja Satúrnusar næstu mánuðina áður en leiðangrinum lýkur á næsta ári. ljósmynd/NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute

Lokakafli tuttugu ára leiðangurs Cassini-geimfarsins við Satúrnus er nú hafinn. Geimfarinu hefur verið komið á braut í kringum póla gasrisans sem strýkur nánast ystu mörk hringja Satúrnusar. Listflugi geimfarsins lýkur með enn djarfari braut á milli plánetunnar og hringjanna og loks árekstri.

Cassini var skotið á loft árið 1997 og kom til Satúrnusar árið 2004. Undanfarin tólf ár hefur könnunarfarið safnað upplýsingum um reikistjörnuna tilkomumiklu, uppgötvað metanhöf á tunglinu Títan og íshveri á Enkeladusi svo eitthvað sé nefnt.

Eftir tuttugu ára leiðangur er eldsneyti geimfarsins brátt á þrotum og því ákváðu stjórnendur þess að nota síðustu mánuðina í fífldjarfari athuganir. Í gær var Cassini komið á braut sem liggur þvert á miðbaug og hringi Satúrnusar og yfir og undir póla hans, rétt utan við ystu hringina.

„Við köllum þennan hluta leiðangursins hringjastrokubraut Cassini vegna þess að við munum strjúkast fram hjá ystu brún hringjanna,“ segir Linda Spilker, vísindamaður við Cassini-teymið.

Geimfarið mun reyna að fanga agnir úr hringjunum og gas í nágrenni þeirra. Þegar geimfarið fer hve næst Satúrnusi verður það í aðeins 90.000 kílómetra fjarlægð frá efstu skýjalögunum í lofthjúpi reikistjörnunnar og jafnvel fljúga í gegnum afar þunnan hring. Þetta gefur einnig einstakt tækifæri til að skoða hóp lítilla tungla sem ganga á braut í eða við ystu mörk hringjanna eins og Pandóru, Atlas, Pan og Daphnis.

Þá mun Cassini reyna að koma auga á rykský sem gætu verið merki um loftsteina sem rekast á hringina þegar þeir verða baklýstir af sólinni.

Í apríl verður síðan komið að svanasöng Cassini. Þá liggur braut geimfarsins á milli Satúrnusar og hringjanna, aðeins rúmum 1.600 kílómetrum yfir skýjunum. 

Leiðangrinum á að ljúka 15. september þegar Cassini steypur sér niður í lofthjúp Satúrnusar. Tilgangur þess er að koma í veg fyrir að menga tungl reikistjörnunnar með örverum frá jörðinni ef geimfarið yrði skilið eftir og brotlenti mögulega á þeim.

Frétt á vef NASA

Frétt New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert