Nóvembermánuður var ekki bara óvenjulegur á norðurskautinu þar sem hitastig var langt yfir meðaltali og hafísinn í sögulegu lágmarki. Vísindamenn hafa nú staðfest að á sama tíma hafi hafísinn á suðurskautinu slegið fyrri met um lágmarksútbreiðslu. Á heimsvísu er hafísþekjan einstaklega lítil.
Samkvæmt tilkynningu Snjó- og ísgagnamiðstöðvarinnar í Boulder í Colorado náði meðalútbreiðsla hafíssins á norðurskautinu sögulegu lágmarki í nóvember. Frá því í október hafi útbreiðsla íssins þar verið meira en tveimur staðalfrávikum lægri en langtímameðaltal. Ísinn er ennfremur óvanalega þunnur.
Frétt Mbl.is: Hitabylgja á norðurskautinu
Á suðurskautinu, þar sem sumarið er að hefjast, skrapp hafísbreiðan hratt saman í nóvember. Útbreiðslan var þar sömuleiðis um tveimur staðafrávikum frá meðaltali allan mánuðinn. Hrunið í ísnum er sérstaklega áberandi á suðurskautinu því þar hefur útbreiðsla hafíssins verið að aukast nokkuð síðustu árin.
Ástæðan fyrir því að hafísinn á norðlægum slóðum á undir högg að sækja er blanda af óvenjulega hlýju lofti, vindum úr suðri og hlýjum sjó sem hafa verið ríkjandi þar í byrjun vetrar. Það olli því ekki aðeins að ísinn óx ekki heldur skrapp hann raunar saman á tímabili sem er nær fordæmalaust í nóvember samkvæmt miðstöðinni.
Á suðurskautinu var ástæðan einnig óvenjuhlýtt loft sem lék um svæðið en einnig virðist vindafar hafa breyst þar sem olli því að lítill hafís var á sumum svæðum.
„Suðurskautið er áhugavert vegna þess að [ísinn] hefur staðið hátt undanfarin ár. Kannski er þetta merki um að þróunin hafi snúist upp í hnignun en það er alltof snemmt að fullyrða um það,“ segir Walt Meier, hafísssérfræðingur hjá NASA við Washington Post.
Meier vill hins vegar ekki draga of miklar ályktanir af því að met sé slegin á báðum heimskautum á sama tíma. Umhverfi þeirra séu svo ólík og þar að auki gangi þau í gegnum mismunandi árstíðir. Metin séu engu að síður sláandi.