Farþegaflugvél á leið frá San Francisco til Boston seinkaði á þriðjudag og breytti næstum um stefnu, eftir að flugáhöfnin tók eftir þráðlausu neti undir nafninu „Samsung Galaxy Note 7“.
Símar þeirrar gerðar hafa verið bannaðir um borð í flugvélum af bandaríska samgönguráðuneytinu, eftir að eldur kviknaði í nokkrum þeirra.
Lucas Wojciechowski var um borð í flugvélinni, sem var á vegum flugfélagsins Virgin America, og segir í samtali við fréttastofu BBC að hann hafi tekið mynd af netmerkinu þegar hann tók eftir því í tölvunni sinni.
Áhöfn flugvélarinnar bað í kjölfarið farþega, sem hefðu símann í fórum sínum, að gefa sig fram.
„Þetta er enginn brandari. Við ætlum að kveikja á ljósunum og leita í töskum allra þangað til við finnum hann,“ segir Wojciechowski að áhöfnin hafi sagt.
„Þetta er flugstjórinn sem talar. Svo virðist sem flugvélin þurfi að breyta um stefnu svo hægt verði að leita í henni, ef enginn gefur sig fram bráðlega.“
Loks gaf eigandi tækisins sig fram, en benti á að hann hefði ekki Note 7 síma með sér, heldur hefði hann breytt nafni nets á öðru tæki sínu í „Samsung Galaxy Note 7_1097“.
Talið er að atvikið muni engar afleiðingar hafa fyrir umræddan farþega, samkvæmt frétt BBC.
Frétt mbl.is: Mun kosta Samsung 616 milljarða