Öskuský tíðari en áður var talið

Gosstrókurinn frá Eyjafjallajökli, séð frá Fljótshlíðinni.
Gosstrókurinn frá Eyjafjallajökli, séð frá Fljótshlíðinni. mbl.is/Golli

Öskuský af völdum eldgosa, sem truflað geta flugumferð yfir Norður-Evrópu, gætu verið tíðari en áður var talið. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar á öskulögum víða í álfunni, en næstum öll eiga þau uppruna sinn að rekja til Íslands.

Fyrri rannsóknir höfðu leitt í ljós að um 56 ár líði að meðaltali á milli slíkra atburða, en nú þykir sýnt að tíðnin sé meiri eða að meðaltali eitt tilvik á hverjum 44 árum.

Um 250 milljónum tonna af fíngerðum kornum var hleypt upp í andrúmsloftið þegar gos varð undir Eyjafjallajökli árið 2010, og þotur voru kyrrsettar vítt og breitt um Evrópu.

Frétt mbl.is: Flugumferð áfram bönnuð

Aska úr eldgosinu í Eyjafjallajökli dreifðist yfir Norður-Evrópu árið 2010.
Aska úr eldgosinu í Eyjafjallajökli dreifðist yfir Norður-Evrópu árið 2010. mbl.is/Kristinn

Meiri gögn, öruggari niðurstöður

Eldgosið í Grímsvötnum aðeins ári síðar olli einnig truflunum á flugumferð, þó talsvert minni.

En þrátt fyrir að aðeins ár hafi liðið á milli þessara gosa, segja vísindamenn að tíðnin sé í raun og veru nokkuð lítil.

„Því meiri gögn sem þú hefur undir höndum, þeim mun öruggari geturðu verið með niðurstöðuna, og það er það sem við vildum gera með þessari rannsókn,“ segir dr. Ivan Savov við Leeds-háskóla í samtali við fréttastofu BBC.

Niðurstöðurnar voru birtar í grein í fræðiritinu Earth and Planetary Science Letters.

Aðalhöfundur greinarinnar, Liz Watson, segir að niðurstöðurnar geti aðstoðað flugfélög, tryggingafyrirtæki og almenning í áætlunum sínum, og hjálpað þeim að minnka tap sitt vegna mögulegra truflana af þessum sökum.

Skriflegar heimildir um öskufall í Evrópu ná aðeins nokkur hundruð ár aftur í tímann. Þurftu rannsakendur því að skoða jarðlög til að skilja tíðni eldgosanna yfir lengri tímabil.

Askan sem féll á Mýrdalssandi var afar fíngerð og þyrlaðist …
Askan sem féll á Mýrdalssandi var afar fíngerð og þyrlaðist upp þegar bílum var ekið austur eftir Suðurlandsvegi, inn í gosmökkinn. mbl.is/Ómar

Skoðuðu mýrlendi og vatnsbotna

Til staðar var ágætur gagnagrunnur yfir sýni úr jarðlögum, sem sýndu hvar og hvenær aska hefði fallið til jarðar, en Watson og kollegar hennar vildu athuga hvort það væru einhverjar gloppur í grunninum.

Skoðaði hópurinn því mýrlendi og vatnsbotna í Englandi, Wales, Svíþjóð og Póllandi, þar sem borað var niður í jörðina til að finna leifar af agnarsmáum glerbrotum sem eldfjöll mynda, svokallaða gosmöl eða gjósku.

Og hvert sem litið var, mátti finna ný og áður óþekkt öskulög, sem gáfu til kynna að gloppur í gagnagrunninum væru af völdum ónógra fyrri rannsókna.

Sé litið til síðustu sjö þúsund ára, sýna gögn að 84 öskuský breiddust á því tímabili yfir Norður-Evrópu. Voru þau næstum eingöngu frá Íslandi komin, utan nokkurra frá Alaska og Rússlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert