Verkfræðingar SpaceX fögnuðu ákaft þegar Falcon 9-eldflaug geimferðafyrirtækisins lenti á skipi í Kyrrahafinu eftir vel heppnaða för út í geim. Um er að ræða fyrsta eldflaugaskot SpaceX eftir að önnur Falcon 9-flaug sprakk á skotpalli í Flórída í fyrra.
Flauginni sem lenti í Kyrrahafi í gær var skotið á loft frá Vandenberg-herstöðinni í suðurhluta Kaliforníu á laugardagsmorgun. Innanborðs voru tíu samskiptagervihnettir fyrirtækisins Iridium, sem hefur gert 468 milljóna dala samning við SpaceX um sjö eldflaugaskot.
Slysið í fyrra var SpaceX kostnaðarsamt en þá sprakk í loft upp Amos 6-samskiptagervihnöttur, sem Falcon 9-flaugin átti að bera út í geim. Gervihnötturinn var metinn á 200 milljónir dala en Facebook hugðist nota hann til að koma á nettengingu á svæðum í Afríku.
Rannsókn leiddi í ljós að slysið mátti rekja til rofs í helíumþrýstikerfi eldlflaugarinnar. Innanhússgögn, sem Wall Street Journal greindi frá, sýndu að SpaceX tapaði 260 milljónum dala á óhappinu og að fyrirtækið myndi líklega ekki ná fjárhagsmarkmiðum árið 2016.
Elon Musk, eigandi SpaceX, er þó hvergi nærri hættur og hyggst enn koma mönnum á tunglið fyrir 2024 og 4.000 SpaceX-gervihnöttum út í geim.