Ræktun líffæra manna í dýrum hefur lengi verið draumur vísindamanna sem vilja geta boðið hjörtu, lungu, nýru og önnur líffæri þeim sjúklingum sem þurfa líffæraígræðslur. Votti af þeirri framtíðarsýn brá fyrir í nýrri stofnfrumurannsókn þar sem frumum úr mönnum var komið fyrir inni í fósturvísum svína og nautgripa. Niðurstöður úr rannsókninni voru birtar í vísindatímaritinu Cell í gær.
Aðalhöfundur rannsóknarinnar segir að þó að hún marki tímamót þá sé enn erfitt að blanda frumum úr mönnum og dýrum saman og enn sé langt í land að mögulegt verði að rækta líffæri.
„Dýrategundir þróast með óháðum hætti og margir þættir sem stjórna þróuninni gætu hafa greinst í ólíkar áttir. Það hindrar blöndun frumna úr einnig tegund í fósturvísa úr annarri,“ segir Jun Wu, vísindamaðurinn sem leiðir rannsóknina. Því ólíkari sem tegundirnar eru, því erfiðar gengur að blanda frumunum.
Annar vísindamaður sem kemur að rannsókninni, Juan Carlos Izpisua Belmonte, orðar þetta með þessum hætti í samtali við CNN: „Að reyna að líkja eftir náttúrunni er ekki svo einfalt.“
Rannsóknin hefur staðið lengi og byrjaði með prófun á blöndun erfðaefna úr líkum dýrategundum, þ.e. músum og rottum. Eitt leiddi af öðru og síðar voru mýs án briss ræktaðar og bris úr rottum ræktuð í þeim.
Í kjölfarið var farið að prófa sig áfram með stofnfrumur úr mönnum og þeim komið fyrir í fósturvísum svína. Svín urðu fyrir valinu þar sem stærð líffæra þeirra og sá tími sem tekur fyrir þau að vaxa og þroskast er svipaður og hjá mönnum.
Vísindamennirnir komu svo þessum fósturvísum fyrir í gyltum. Tilrauninni var hætt eftir fjórar vikur. Þá þegar höfðu fósturvísarnir verið farnir að sérhæfast og breytast í forvera líffæravefja.
Wu ítrekar að rannsóknin sé mjög skammt á veg komin og margar hindranir séu í veginum. Þó að rannsókninni hafi verið hætt af öryggisástæðum eftir 28 daga er hún sú fyrsta þar sem stofnfrumur úr mönnum hafa byrjað að vaxa innra með annarri dýrategund. Það er lítið en mikilvægt skref í áttina að því að rækta heilu líffærin.
Rannsóknin, sem er stýrt af vísindamönnum við bandaríska háskóla og stofnanir, er ekki fjármögnuð með skattpeningum bandarískra ríkisborgara nema að litlu leyti. Hún er að stærstum hluta fjármögnuð með fé frá einkaaðila á Spáni.
Það sem greinir þessar rannsókn fyrst og fremst frá fyrri tilraunum með stofnfrumur er að í henni var frumum úr mönnum komið fyrir í fósturvísi áður en hann var settur upp í annarri dýrategund. Hingað til hefur erfðaefni úr mönnum verið komið fyrir á fósturstigi eða eftir fæðingu. Við þær aðstæður er hægt að hafa mun meiri stjórn á erfðaefninu og útbreiðslu þess um hýsilinn, s.s. svínið eða rottuna.
Því hafa ýmsar siðferðislegar spurningar vaknað. Áhyggjurnar snúast m.a. um að frumur úr mönnum gætu farið í og þróast í heila annarrar dýrategundar. Það dýr gæti því mögulega dreift frumum úr mönnum í sín afkvæmi.
Siðferðilega spurning er í raun þessi í hnotskurn: Ef þú setur frumur úr mönnum í annað dýr, er það þá orðið mannlegt að einhverju leyti og nýtur þar með ákveðinna mannréttinda?
Skoðun vísindamannanna er sú að svo lengi sem hægt er að forðast breytingar á heila dýrsins, uppbyggingu hans eða virkni, þá þurfi ekki að velta þessu fyrir sér. Þeir segja að dýravelferð eigi enn að vera í hávegum höfð við rannsóknir sem þessar.