Tölvuárásirnar sem voru gerðar á fjölda breskra sjúkrahúsa í dag beinast ekki eingöngu gegn þeim heldur alþjóðasamfélaginu öllu. Þetta sagði Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. Tölvuárásir voru gerðar í að minnsta kosti 70 löndum víðs vegar um heiminn.
Auk Bretlands urðu Spánn, Rússland, Kína, Bandaríkin, Ítalía og Tævan fyrir barðinu á tölvuþrjótunum. Talið er að fleiri lönd eigi eftir að bætast í hópinn, að því er BBC greinir frá.
Árásin lýsti sér með þeim hætti að skyndilega fraus tölvukerfið og gögn í tölvunum urðu dulkóðuð. Til að aflétta dulkóðuninni er krafist lausnargjalds í gjaldmiðlinum bitcoin sem nemur um 300 dollurum.
Fyrr í dag neyddust nokkur bresk sjúkrahús að vísa sjúkrabifreiðum á aðrar heilbrigðisstofnanir og jafnframt var almenningur hvattur til að hafa ekki samband við lækna sína.
„Tölvuöryggismiðstöðin vinnur náið með sjúkrahúsinu í að tryggja öryggi sjúklinganna,“ sagði May jafnframt og tók fram að stjórnvöld hefðu ekki vitneskju um að tölvuþrjótar hefðu komist yfir viðkvæm gögn um sjúklinga.
Á Spáni var gerð tölvuárás á fjarskiptafyrirtæki. Fengu starfsmenn tilkynningu um að slökkva á öllum tölvum.