Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, segir í samtali við mbl.is að ekki liggi fyrir hvort einhverjar tilkynningar hafi borist um að fyrirtæki eða einstaklingar hafi orðið fyrir tölvuárásinni sem hófst á föstudaginn. Starfsfólk stofnunarinnar sé að mæta til vinnu og engin vakt sé á næturnar enda hafi hún ekki mannskap til þess.
„Við tökum stöðuna undir klukkan níu og þá vitum við meira,“ segir Hrafnkell. Árásin felur í sér að gögnum í tölvum er læst og eigandinn krafinn um lausnargjald í formi greiðslu í rafeyrinum Bitcoin. Hundruð þúsunda tölva í um 150 löndum hafa orðið fyrir barðinu á árásinni. Ólíklegt þykir að Ísland fari varhluta af árásinni.
Óttast er að önnur bylgja sýktra tölva komi í dag þegar fólk um allan heim mætir til starfa og ræsir tölvur sínar. Fólk er varað sérstaklega við því meðal annars að opna viðhengi sem það þekkir ekki eða smella á grunsamlega tengla.