Minnkandi hafís á norðurslóðum virðist valda því að hvítabirnir þurfi að hafa meira fyrir því að afla sér ætis en áður. Umhverfisbreytingarnar valda því að dýrin þurfa að hafa mun meiri yfirferð en áður til að fá í svanginn. Þetta veldur því að þeir ná ekki að mæta orkuþörfinni og horast sem aftur leiðir til hærri dánartíðni.
Fréttavefur BBC birti í fyrradag frétt um að hvítabirnirnir ættu erfitt með að afla sér ætis. Í fréttinni er vitnað í nýja grein í vísindatímaritinu Science eftir A.M. Pagano o.fl. Þar er sagt frá rannsókn bandarískra vísindamanna við Kaliforníuháskóla í Santa Cruz undir forystu Anthony Pagano. Þeir settu hátæknihálskraga á níu hvítabirnur sem héldu sig á hafísnum á Beaufort-hafi. Hafsvæðið er norðan við Alaska og norðvesturhéruð Kanada og vestur af heimskautaeyjum Kanada.
Tækjabúnaðurinn skráði staðsetningu dýranna með GPS-tækni, tók hreyfimyndir og fylgdist með því hvað dýrin voru mikið á ferðinni. Birnurnar báru búnaðinn í 8-12 daga í senn á tveggja ára tímabili. Einnig var fylgst með hraða efnaskipta í birnunum og tekin úr þeim blóð- og þvagsýni í því skyni. Í ljós kom að efnaskipti hvítabjarna eru 1,6 sinnum hraðari en áður var talið og orkuþörfin sem því nemur meiri. Niðurstaðan varð sú að fæstar birnanna náðu að éta nógu mikið til að mæta orkuþörfinni.
Meira en helmingur birnanna í rannsókninni léttist á meðan fylgst var með þeim. Það var því ljóst að þær náðu ekki að veiða nóg til að mæta orkuþörf sinni á þeim tíma. Fjórar birnanna misstu um eða yfir 10% af líkamsmassanum á 8-11 daga tímabili. Meðaltapið var um 1% á dag. Þetta var fjórfalt meira þyngdartap á dag og 2,2 sinnum meira í kílóum talið en hjá fastandi hvítabjörnum á landi. Venjulega hafa þeir mun hægar um sig en birnurnar sem rannsakaðar voru á ísnum.
Fyrri rannsóknir höfðu sýnt að 42% fullorðinna birna á ísnum í Beaufort-hafi vorin 2000 til 2016 höfðu ekki étið í sjö daga eða lengur áður en þær voru handsamaðar vegna rannsókna. Þetta hlutfall fastandi birna var 12% hærra en mælingar frá 1983 til 1999 sýndu. Það bendir til þess að breytt ástand hafíssins á vorin hafi haft þessi áhrif.
Selir eru aðalfæða hvítabjarna og feitir selirnir svara vel þörf þeirra fyrir orkuríka fæðu. Selina veiða birnirnir á hafísnum, við ísröndina og vakir eða öndunarholur. Minnstur hafís er á norðurslóðum í september ár hvert. Hann hefur minnkað um u.þ.b. 14% á hverjum áratug. Minni hafís þýðir að veiðisvæði hvítabjarnanna á ísnum minnkar og þar með möguleikar þeirra á að afla þar ætis. Þegar ísinn hverfur eiga birnirnir bágt með að afla nægrar fæðu. Minnkandi hafís og minni veiðimöguleikar valda því að birnirnir hafa meiri yfirferð í leit að æti. Þetta er talið valda vaxandi streitu hjá hvítabjörnunum sem aftur leiðir til hærri dánartíðni.
Ungir selkópar eru uppistaðan í fæðu bjarnanna á vorin. Svo taka við magrir sumarmánuðir. Þegar aftur fer að frysta eru kóparnir orðnir eldri og vitrari og kunna betur að varast hættur, m.a. frá hvítabjörnum. Það er því snúnara að veiða þá á haustin en á vorin.