Breska ráðgjafarfyrirtækið Cambridge Analytica nýtti sér persónuupplýsingar um 2,7 milljóna facebooknotenda innan landa Evrópusambandsins. Talsmaður sambandsins greindi frá því í dag.
Framkvæmdastjórn ESB fékk bréf frá Facebook seint í gær þar sem frá þessu var greint. Evrópusambandið mun fara fram á frekari gögn frá Facebook um ráðgjafarfyrirtækið.
„Facebook staðfesti við okkur að Cambridge Analytica hefði nýtt sér upplýsingar um 2,7 milljónir Evrópubúa, eða réttara sagt 2,7 milljónir fólks í Evrópusambandinu,“ sagði talsmaður ESB.
Áður hafði verið greint frá því að Cambridge Analytica hefði nýtt sér upplýsingar allt að 87 milljóna facebooknotenda. Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, mun bera vitni fyrir framan bandaríska þingnefnd 11. apríl vegna meintrar misnotkunar Cambridge Analytica á persónulegum upplýsingum á Facebook.