Náðu glæpamanni með andlitsgreiningartækni

170 milljónir eftirlitsmyndavéla eru notaðar af kínverskum stjórnvöldum. Þeim mun …
170 milljónir eftirlitsmyndavéla eru notaðar af kínverskum stjórnvöldum. Þeim mun fjölga um 400 milljónir á næstu þremur árum. mbl.is/Eggert

Kínverska lögreglan nýtti andlitsgreiningartækni til þess að finna og handtaka mann meðal 60 þúsund tónleikagesta í Kína á dögunum. Var maðurinn furðu lostinn við handtökuna.

Hinn grunaði, sem er kallaður er Ao, var á tónleikum Jacky Cheung í Nanchang-borg síðustu helgi þegar hann var handtekinn, segir í frétt BBC. Samkvæmt lögreglunni var Ao, sem er grunaður um efnahagsbrot, hissa þegar lögreglan mætti á staðinn. „Hann trúði því einfaldlega ekki að við gætum náð honum svona hratt meðal 60 þúsund tónleikagesta,“ er haft eftir lögreglumanninum Li Jin.

Andlitsgreiningartækni sem tengd er myndavélakerfi tónleikahússins greindi Ao í miðasölunni og var hann handtekinn eftir að hafa komið sér fyrir í sæti.

Gervigreind og andlitsgreiningartækni

Þetta er ekki fyrsta sinn sem lögreglan í Kína notfærir sér þessa tækni til þess að hafa hendur í hári glæpamanna, en lögreglan í Shangdong-héraði handtók 25 einstaklinga þegar andlitsgreiningartækni var notuð á Qingdao-bjórhátíðinni.

Kína skarar fram úr þegar kemur að andlitsgreiningartækni og stjórnvöld láta þegna reglulega vita að þessi búnaður geri það ómögulegt að komast undan yfirvöldum.

Myndavélkerfi kínverskra stjórnvalda er það umfangsmesta í heiminum. 170 milljónir eftirlitsmyndavéla eru í notkun og er búist við að þeim muni fjölga um 400 milljónir á næstu þremur árum. Margar þessara myndavéla notfæra sér gervigreind, þar með talið andlitsgreiningartækni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert