Kosningahnappur á Facebook sem birtist íslenskum Facebook-notendum á kjördegi í október 2017 er til umfjöllunar á vef Guardian í dag. Rætt er við Elfu Ýri Gylfadóttur, framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar um hnappinn og ólíkt viðmót sem blasti við íslenskum Facebook notendum 28. október.
Að morgni kjördags opnaði Heiðdís Lilja Magnúsdóttir, lögfræðingur hjá fjölmiðlanefnd, Facebook á fartölvu sinni og sá þar hnappinn. Hún tók skjáskot af síðunni og birti á Facebook þar sem hún spurði hvort aðrir hafi fengið sömu skjámynd upp þennan morguninn.
Í ljós kom að hvorki Elfa hafði ekki fengið sömu mynd en eiginmaður hennar hafði fengið sama hnapp og Heiðdís. Elfa fylgdist með svörum á síðu Heiðdísar og kom í ljós að sumir höfðu fengið sama viðmót aðrir ekki.
Þegar betur var að gáð kom í ljós að það var engin tilviljun hverjir fengju skilaboðin og hverjir ekki. Fólk sem ekki var komið með kosningarétt fékk þau ekki og ekki heldur þeir sem ekki eru með íslenskan ríkisborgararétt. Aðeins hluti kjósenda.
Strax að loknum kosningum hvarf hnappurinn og ekkert sást til hans eftir það. Þegar Elfa hafði samband við formann landskjörstjórnar, Kristínu Edwald, kom hún af fjöllum. Hún hafði ekki heyrt af hnappinum né heldur nefndin sem vinnur að breytingum á kosningalögum.
Þetta er í fyrsta skipti sem slíkur hnappur er gerður fyrir Facebook á Íslandi en skömmu áður hafði verið haldin ráðstefna á vegum OECD um falsfréttir. Misnotkun Rússa á því sviði og einstaklingsmiðaðar auglýsingar.
Í sama mánuði og þingkosningarnar voru haldnar á Íslandi komu fulltrúar Facebook hingað til lands og ræddu við fulltrúa íslensku stjórnmálaflokkana um hvernig þeir gætu nýtt sér Facebook.
18 dögum fyrir kosningar var leiðtogum stærstu flokkanna boðið á fund í fundarherbergi á Alþingi, sem var lokað öðrum en þeim sem höfðu skilríki um að þeir mættu vera þar.
Þar fóru Anika Geisel og Janne Elvelid fulltrúar Facebook yfir það með flokksleiðtogum hvernig þeir gætu nýtt Facebook til þess að laða að sér vænlega kjósendur. Enn hefur Elfa ekki fengið fullvissu fyrir tilganginum með þessu hjá Facebook en vitað er að þessi aðferð er notuð víðar. Hún var til að mynda notuð í kosningunum í Bandaríkjunum og nú síðast í þingkosningunum á Ítalíu.