Hneykslismálið breytir ekki Facebook-notkun

64% aðspurðra sögðust nota Facebook a.m.k. einu sinni á dag.
64% aðspurðra sögðust nota Facebook a.m.k. einu sinni á dag. AFP

Flestir Facebook-notendur í Bandaríkjunum halda tryggð við samfélagsmiðilinn þrátt fyrir fréttir af notkun fyrirtækisins Cambridge Analytica á persónuupplýsingum þeirra til að aðstoða Donald Trump við að hafa sigur í bandarísku forsetakosningunum.

Þetta er niðurstaða nýrrar skoðanakönnunar Reuters/Ipsos survey, sem bendir ekki til þess að fréttirnar hafi haft nein áhrif á notkun fólks á  samfélagsmiðlinum.

Fjórðungur þeirra sem svöruðu könnuninni sögðust nota Facebook minna nú, en annar fjórðungur sagðist nota samfélagsmiðilinn meira en áður. Þá sagði helmingur þátttakenda að þeir hefðu ekki breytt notkun sinni á Facebook.

64% aðspurðra sögðust nota Facebook a.m.k. einu sinni á dag, sem er örlítið minna en þau 68% sem sögðust nota samfélagsmiðilinn daglega, skömmu eftir að fréttir af gagnanotkuninni bárust.

Spurðir hvort þeir væru meðvitaðir um stillingu Facebook-síðu sinnar sögðu 74% svo vera og 78% kváðust vita hvernig þeir ættu að breyta henni. Hjá Twitter var hlutfallið 55% og 58% og hjá Instagram var það 60% og 65%.

Michael Pachter, sérfræðingur hjá Wedbush Securities, sagði í samtali við Reuters að Facebook hefði verið heppið að notendaupplýsingarnar virðist aðeins hafa verið notaðar í tengslum við stjórnmálaauglýsingar, en ekki í eitthvað ógnvænlegra.

„Ég á enn eftir að lesa grein sem fjallar um að ein einasta manneskja hafi orðið fyrir skaða af gagnalekanum,“ sagði Pachter.

Könnunin náði eingöngu til bandarískra Facebook-notenda og bíða rannsakendur nú eftir fréttum af stöðu Facebook á markaði eftir annan ársfjórðung þessa árs, en þá var málið hvað mest í fjölmiðlum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka