DNA-sýni verða notuð til að finna áður óþekktar lífverur í Loch Ness, vatninu sem þar sem goðsögnin um skrímslið Nessie lifir enn góðu lífi.
Nýsjálenski vísindamaðurinn Neil Gemmell leiðir rannsóknina segist ekki trúa á tilveru Nessie en segist fullviss um að finna erfðaupplýsingar um aðrar verur. Með slíkum líffræðilegum skýringum megi hins vegar mögulega varpa ljósi á sumar þær sögur sem fara af vatnaskrímslinu Nessie.
Teymi Gemmell mun vinna að því í tvær vikur í júní að safna erfðaefni úr lífverum vatnsins, s.s. fiski og plöntum. „Ég trúi ekki á skrímsli en ég opinn fyrir þeirri hugmynd að það séu þarna hlutir sem enn á eftir að uppgötva og eru ekki að fullu útskýrðir. Kannski finnst líffræðileg ástæða fyrir sumum sagnanna.“
Gögnin sem verður aflað í sumar verða send til Nýja-Sjálands, Ástralíu, Danmerkur og Frakklands til greiningar. „Það er alveg klárt mál að við munum finna eitthvað nýtt. Og þetta er mjög spennandi,“ segir Gemmell.
Gemmell segir að samkvæmt goðsögninni eigi að finnast skrímsli frá júratímabilinu í vatninu.
Þjóðsagan um Nellie er ein sú elsta og lífseigasta í Skotlandi. Fjöldi bóka og kvikmynda hafa verið gerðar um skrímslið og í dag er mikil ferðamennska á svæðinu tengd því.
Í frétt BBC segir að fyrstu heimildirnar séu allt að 1.500 gamlar en í þeim er endursögð saga írsks trúboða sem sagðist hafa rekist á skrímsli í ánni að Loch Ness árið 565.
Það var svo á fjórða áratug síðustu aldar sem fyrstu „fréttirnar“ fóru að birtast í fjölmiðlum af Nessie. Í dagblaðinu Fort Augustus árið 1933 segir fréttamaður frá því að kona ein hafi talið sig sjá Nessie. Sagði hún skrímslið líkjast hval. Allar götur síðan hafa verið gerðir út leiðangrar til að kanna sannleiksgildi þessara frásagna. Og enn telur fólk sig sjá Nessie svamla um í Loch Ness. Í fyrra barst metfjöldi tilkynninga frá fólki sem fullyrti að það hefði komið auga á hana.