Leigubílaþjónustan Uber hefur sótt um einkaleyfi fyrir gervigreind sem getur borið kennsl á það hversu ölvaðir mögulegir farþegar þjónustunnar kunna að vera.
Samkvæmt frétt BBC gæti smáforritið einnig veitt bílstjórunum upplýsingar um staðsetningu farþeganna, hversu nákvæmlega þeir skrifuðu og jafnvel hvernig þeir héldu á símum sínum.
Eiga þessir eiginleikar forritsins að aðstoða þá bílstjóra sem ekki vilja þjónusta farþega sem eru undir áhrifum áfengis. Samkvæmt umsókn til einkaleyfastofu Bandaríkjanna myndi forritið bera kennsl á óvenjulega notendavirkni.
Efasemdamenn hafa áhyggjur af því að forritið gæti verið notað til þess að bera kennsl á varnarlausa notendur, en yfir 100 ökumenn Uber í Bandaríkjunum hafa verið sakaðir um kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi gagnvart farþegum á síðastliðnum fjórum árum. Þar af hefur 31 verið dæmdir sekir fyrir glæpi á borð við frelsissviptingar og nauðganir.
Í yfirlýsingu frá Uber vegna málsins segir að fyrirtækið sé alltaf að leita leiða til þess að bæta upplifun bílstjóra og farþega. Þá segir að fyrirtækið sæki um einkaleyfi fyrir fjölda hugmynda og að þær verði ekki allar að veruleika.