Tölvuþrjótar hafa stolið persónuupplýsingum einnar og hálfrar milljónar íbúa í Singapúr með því að brjótast inn í gagnagrunn heilbrigðisyfirvalda ríkisins. Stjórnvöld í Singapúr segja í yfirlýsingu að árás tölvuþrjótanna hafi verið þaulskipulögð og að ekki hafi verið um áhugamenn að ræða.
Þetta er stærsti tölvuglæpur í sögu Singapúr og nær til um fjórðungs íbúa í borgríkinu.
Fram kemur í yfirlýsingu stjórnvalda að tölvuþrjótarnir hafi ekki komist yfir sjúkraskrár íbúa, en að þó hafi þeir náð að stela upplýsingum um útgefna lyfseðla 160.000 sjúklinga. Að öðru leyti stálu tölvuþrjótarnir aðallega nöfnum, kennitölum og heimilisföngum sjúklinga.
Tölvuárásin beindist sérstaklega að persónuupplýsingum forsætisráðherra Singapúr, Lee Hsien Loongs. Í tilkynningu heilbrigðisyfirvalda segir að tölvuþrjótarnir hafi gert ítrekaðar tilraunir til þess að komast yfir upplýsingar um útgefna lyfseðla forsætisráðherrans.
Gögnunum sem var stolið í tölvuárásinni vörðuðu þá íbúa sem heimsóttu heilsugæslur borgríkisins á tímabilinu frá 1. maí 2015 til 4. júlí á þessu ári.
Ekki var átt við sjúkraskrár sjúklinga, þeim var hvorki breytt né eytt, samkvæmt því sem stjórnvöld í Singapúr segja.
Stjórnvöld í Singapúr hafa áður varað við tölvuárásum af þessu tagi og segjast hafa verið skotspónn tölvuþrjóta á undanförnum árum. Brugðist hefur verið við því með hertum öryggisráðstöfunum í ráðuneytum landsins.
Í fyrra náðu tölvuþrjótar að brjótast inn í tölvukerfi varnarmálaráðuneytisins í Singapúr, en náðu einungis að komast yfir grunnupplýsingar um herskyldu.