Íslenski tölvuleikjaframleiðandinn CCP hefur samið við kínverska risafyrirtækið Netease Games um gerð farsímaútgáfu af tölvuleiknum Eve Online. Netease er eitt stærsta net- og tölvuleikjafyrirtæki í heimi.
Eyrún Jónsdóttir, markaðsstjóri CCP, segir CCP ætla að komast inn á ört vaxandi markað farsímaleikja með útgáfu þessa vinsæla leiks fyrir farsíma, en tekjur farsímaleikja nálgast að vera um helmingur tekna í tölvuleikjaiðnaðinum. Sögusvið EVE Online er í geimnum þar sem spilarar spila saman í rauntíma þar sem þeir ýmist verja tímanum í að byggja upp geimflota sinn eða berjast við aðra spilara um yfirráðin.
„Við erum að færa okkur inn á farsímamarkaðinn í samtarfi við öflug fyrirtæki,“ segir Eyrún en auk EVE Online farsímaútgáfunnar vinnur CCP að öðru farsímaverkefni með finnska fyrirtækinu Play Raven og útgefandanum Kongregate. Sá leikur byggir á EVE Online-vörumerkinu en leikurinn gengur út á aðra hluti.
Farsímaútgáfu EVE Online mun svipa mjög til þess sem spilarar þekkja nú úr borðtölvunum, en með einhverjum breytingum til þess að laga leikinn að farsímum. Þannig munu spilarar eiga möguleika á að fljúga geimskipum á farsímum sínum og býr farsímaútgáfan yfir sömu félagslegu uppbyggingu og EVE Online er þekkt fyrir í dag þar sem spilarar geta búið til og stýrt sínum eigin félögum í leiknum og þannig barist um og tekið yfir ný svæði.
Helstu eiginleikar og spilunarmöguleikar verða þeir sömu,“ segir Eyrún. Um hvorn sinn EVE-heiminn verður þó að ræða eftir því hvort spilarar eru í borðtölvum eða á farsímum. Hún segir að leikurinn komi fyrst út á iOS og svo á Android. Er útgáfu leiksins strax að vænta á næsta ári og er hann unninn í nánu samstarfi CCP og NetEase.
Netease ætti að hljóma kunnuglega í eyru tölvuleikjaspilara en fyrirtækið er risastórt á tölvuleikjamarkaði. Sér það um dreifingu margra vinsælustu netleikja heims í Kína, m.a. í samstarfi við leikjafyrirtækið Blizzard, sem er þekktast fyrir World of Warcraft. Þá gefur fyrirtækið út Overwatch á Kínamarkaði og sérstakar farsímaútgáfur Minecraft.
Fyrirtækið mun taka yfir útgáfu og dreifingu borðtölvuútgáfu EVE Online í Kína samhliða útgáfu nýja farsímaleiksins og segir Eyrún að eitt stærsta verkefnið sem bíði CCP næstu mánuðina sé að gæta þess að ekkert fari úrskeiðis svo leikurinn og spilasaga kínversku EVE Online-spilaranna glatist ekki þegar leikurinn verður færður á milli netbeina.
„Þegar Netease tekur við í október bætist við mikið af nýju efni og fá kínversku spilararnir útgáfu af leiknum sem er næstum eins og sú útgáfa sem vestrænu spilararnir eru að spila, meðal annars útgáfuna sem býður upp á að spila leikinn frítt eða í áskrift, ný geimskip og geimstöðvar og nýtt svæði þar sem áður óséð fylking ræður ríkjum, Abyssal Deadspace,“ segir Eyrún og bíða spilararnir því margir með mikilli eftirvæntingu eftir uppfærslunni.
„Netease hefur mikla reynslu af því að taka flókna leiki eins og EVE Online og koma þeirri upplifun á farsíma,“ segir Eyrún. Má þar nefna sem dæmi leikina Crusaders of Light og Fantay Westward Journey.
„Þetta byggir á góðum leik og upplifun spilaranna á að vera góð,“ segir Eyrún um farsímaleikinn en tekjumódelið verður F2P, þar sem leikmenn greiða ekkert fyrir leikinn en hafa möguleika á svokölluðum „In-game purchases“.
Í dag eru um tveir af hverjum þremur spilurum EVE Online í áskrift á Vesturlöndum en öllum spilurunum í Kína hefur ekki staðið til boða að spila leikinn án áskriftar. Það breytist með uppfærslunni á kínverska netbeininum í haust.
Líkt og mbl.is greindi frá í október á síðasta ári ákvað CCP að setja þróun sýndarveruleika á hilluna næstu tvö til þrjú ár og loka starfsstöð sinni í Atlanta. Sagði Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, að fyrirtækið hefði séð fyrir sér ládeyðu á markaði sýndarveruleika þrátt fyrir góðan árangur við útgáfu fyrstu leikjanna.
„Við dýfðum tánni í VR en við sáum þann markað ekki fara á flug eins og spár höfðu gert ráð fyrir. Vöxturinn er mjög hraður á farsímamarkaði og PC-markaðurinn er mjög sterkur enn þá. Við erum nú þegar að þróa nokkra leiki inn á þann markað,“ segir Eyrún.
Hér heima fyrir er CCP að þróa fyrstu persónu skotleik úr EVE Online-heiminum og verið er að þróa annan leik hjá fyrirtækinu í Lundúnum, Það er svokallaður MMO-leikur (Massive Multiplayer Online).