Íslensk bein fundust sem talin eru vera frá 9. öld

Uppdráttur af tóftum í Sandvík á Selströnd. Grunnhugmynd að því …
Uppdráttur af tóftum í Sandvík á Selströnd. Grunnhugmynd að því hvernig bær kann að hafa legið. Loftmyndir ehf./Minjastofnun

Í Sandvík á Selströnd í Kaldrananeshreppi hafa fundist dýrabein frá 9. öld. Þau benda ótvírætt til mannabyggðar á þeim slóðum. Á næstu dögum munu fornleifafræðingar á þessu svæði rannsaka öskuhaug og aðrar mannvistarleifar.

Bergsveinn Birgisson, rithöfundur og fræðimaður sem er ættaður úr Bakkagerði á Ströndum, segir frá þessu í samtali við mbl.is.

Bein þessi fóru að hans sögn að standa út úr sjávarbakkanum árið 2010. Voru þau þá tekin og gerðar rannsóknir á þeim. Í framhaldinu fannst bæjarstæði sem engar heimildir voru um fyrir.

Nú stendur yfir eins konar forverkefni, þar sem alþjóðlegt teymi fornleifafræðinga kannar svæðið. Með því að taka jarðvegssýni sjá þeir hvort tilefni sé til frekari uppgraftrar og ítarlegrar rannsóknar. Sú rannsókn tæki sennilega nokkur ár og yrði að líkindum kostnaðarsöm.

„Það er óumdeilt að þetta er ruslahaugur eftir mannfólk. Þarna eru gamlar tóftir sem við getum notað til að gera okkur grein fyrir bæjarstæði,” segir Bergsveinn.

„Þetta er merkilegt því að um byggð á þessu svæði á þessum tíma eru engar ritaðar heimildir, ekkert í Landnámu né öðrum norrænum textum,” bætir Bergsveinn við, sem er doktor í norrænum fræðum. „Þess vegna er þetta ný uppgötvun, viðbót við söguna.”

13. ágúst hefja fornleifafræðingarnir störf og verða að næstu vikur. Frekari upplýsingar um fornleifarnar ættu því að líta dagsins ljós á næstunni.

Málþing um nýja landnámsbæinn verður haldið á nágrannabænum Hveravík á Ströndum 18. ágúst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert