Bandaríska geimferðastofnunin NASA hefur skotið á loft ómönnuðu könnunarfari sem er ætlað að rannsaka sjálfa sólina. Geimflauginni var skotið frá Kanaveralhöfða í Flórída í morgun, en skotinu hafði verið frestað um sólarhring.
Eldflaugin þaut til himins með Parker-sólarkannann sem fær það hlutverk að fara um funheitan lofthjúp sólarinnar og snerta sólina. Vonir standa til að geimfarið muni leysa ráðgátur varðandi hegðun sólarinnar.
Parker-sólarkanninn mun þjóta fram hjá Venusi eftir um sex vikur og eiga sinn fyrsta fund með sólinni sex vikum síðar.
Farið mun fljúga um geiminn á um 69.200 kílómetra hraða á klukkustund og ætti þar með að verða hraðskreiðasta manngerða far í sögunni til þessa.
Vonast er til þess að með rannsóknum á kórónunni verði hægt að spá fyrir um veðurtilbrigði úti í geimnum, en geimstormar geta til dæmis raskað orkustöðvum á jörðinni. Þetta gerist þegar sólvindar raska segulsviði jarðarinnar og dæla orku í geislabelti hennar. „Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að geta spáð fyrir um geimveður eins og um veðrið á jörðinni,“ sagði sólfræðingurinn Alex Young hjá NASA í samtali við AFP.
Könnunargeimfarið mun halda sig í um 6,16 milljón kílómetra fjarlægð frá yfirborði sólarinnar en þar mun það vera í um 1.379 gráða hita á selsíus. Fylgst verður með og myndir teknar af sólvindinum þegar vindhraðinn rýfur hljóðmúrinn.
Farið er umlukið sérstökum ellefu sentimetra þykkum varnarhjúpi úr kolefnablöndu sem á að gera því kleift að þola þennan gríðarlega hita. Hjúpurinn er hannaður til að standast um fimmhundruðfaldan hita andrúmslofts jarðarinnar og á hann að halda geimfarinu nærri þægilegum 30 gráða stofuhita.