Hálfrar aldar markmið vísindamanna að nást

Parker lagði af stað til sólar í gær.
Parker lagði af stað til sólar í gær. AFP

„Það sem gerir þetta sögulegt er að þetta er fyrsta geimfar manna sem kemst svona rosalega nálægt sólinni. Geimfarið er að fara inn í kórónu sólarinnar, sem er gashjúpur sem umlykur sólina svolítið svipað og andrúmsloftið hjá okkur,“ segir Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefjarins. Sólfarið Parker lagði af stað í sjö ára ferð sína í gær og er áætlað að það fari á þeim tíma 24 sinnum inn í kórónu sólarinnar.

„Kórónan er örþunn, en hitastigið þar er kannski milljón gráður og við höfum ekki hugmynd um af hverju. Það er svo þessi kóróna sem ræður miklu um það hvernig geimveðrið er í nágrenni jarðarinnar og það skiptir okkur máli vegna þess að aðstæður í geimveðrinu geta haft áhrif á til dæmis rafveitukerfi á jörðinni og geta slegið út gervihnetti. Þannig við viljum reyna að skilja þetta allt saman til að geta spáð betur fyrir um geimveður og þar af leiðandi vonandi bjargað stórum rafveitukerfum og gervitunglunum okkar í framtíðinni,“ segir Sævar.

Parker kemur til með að fara eins djúpt í kórónu …
Parker kemur til með að fara eins djúpt í kórónu sólar og hægt er án þess að geimfarið bráðni. AFP

Fer eins nálægt og hægt er

Farið mun fljúga um geim­inn á um 69.200 kíló­metra hraða á klukku­stund og ætti þar með að verða hraðskreiðasta mann­gerða far í sög­unni til þessa. Eftir því sem fram kemur á heimasíðu NASA mun farið nýta sér aðdrátt­ar­afl Venus­ar til þess að þoka sér smám sam­an nær sól­inni á spor­baugi um hana á ferðalag­inu. Þar segir einnig að Parker eigi að komast meira en sjö sinnum nær sólinni en nokkurt annað geimfar.

„Það verður í svona sirka sex milljón kílómetra fjarlægð frá sólinni þegar það er næst henni. En þá er líka hitastigið sem geimfarið finnur fyrir orðið einhverjar þrettánhundruð gráður og það kemst bara ekki mikið nær án þess að bráðna bara hreinlega í hitanum. Þegar þetta gerist þá snýr farið alltaf með svona hitaskjöld að sólinni til að koma í veg fyrir að það laskist,“ segir Sævar.

Parker á fleygiferð í geimnum.
Parker á fleygiferð í geimnum. AFP

Þá segir Sævar að Parker fari eftir sporöskjulaga braut um sólina og er ysti punktur hennar rétt fyrir innan braut jarðarinnar. „Svo dýfir það sér fram hjá sólinni reglulega til þess að komast eins djúpt inn í kórónuna og hægt er.“

Samkvæmt NASA mun geimfarið „snerta sólina“ eins og stofnunin hefur orðað það í kynningum á farinu.

„Maður getur tæknilega séð aldrei snert sólina því hún er úr gasi, en það sem við skilgreinum sem yfirborð, sem er ákveðið lag á sólinni sem heitir ljóshvolf, það er enn þá sex milljón kílómetra í burtu þegar geimfarið er næst sólinni. Tæknilega séð er það samt að dýfa sér inn í sólina þegar geimfarið fer inn í kórónuna, þennan hjúp sem umlykur sólina,“ segir Sævar.

Áætlað er að farið komist næst sólinni í desember 2024.

Hitaskjöldur kemur í veg fyrir bráðnun

Sævar segir að hægt og bítandi komi eldsneyti og kælivökvi farsins til að klárast fyrir utan það að það laskist sökum álags. Líftími geimfarsins gerir því ráð fyrir að það endist í geimnum í að minnsta kosti sjö ár að því gefnu að ekkert fari úrskeiðis.

Eldflaugin Delta IV Heavy rocket fékk það hlutverk að bera …
Eldflaugin Delta IV Heavy rocket fékk það hlutverk að bera Parker-sólarkannann út í geim. AFP

„Kórónan sjálf er svo rosalega þunn að þú myndir ekki finna fyrir því þótt þú værir jafnvel inni í henni. Þú myndir finna miklu meiri hita frá sólinni sjálfri en þeumss milljón gráðum sem umlykja þig því hún er svo rosalega þunn. Þetta er nánast eins og að vera í tómarúmi, svona næstum því. Þegar geimfarið er næst sólinni er stærðarinnar hitaskjöldur á því sem er úr sérstakri gerð af kolefni sem þolir svona rosalega hátt hitastig og skýlir öllum mælitækjum fyrir hitageisluninni sjálfri sem er svona rosalega heit. Þannig getur geimfarið lifað af án þess að bráðna.“

Hitaskjöldur geimfarsins er búinn 11,5 sentimetra kolefnisskildi og á að geta þolað allt að 1.400 gráðu hita.

Samkvæmt Sævari hefur það lengi verið draumur vísindamanna NASA að senda geimfar á borð við Parker í könnunarleiðangur inn í lofthjúp sólarinnar.

Skýringarmynd um Parker og það sem fram undan er.
Skýringarmynd um Parker og það sem fram undan er. AFP

„Þetta er búið að vera á dagskrá síðan um það bil 1960. Eitt af fyrstu markmiðum NASA þegar það var stofnað var að senda geimfar nálægt sólinni en svo tók sinn tíma að búa til geimfarið og setja það á teikniborðið. Það loksins tókst fyrir einhverjum áratugum síðan og svo var því loksins skotið á loft í gær.“

Par­ker-sól­ark­ann­inn mun þjóta fram hjá Ven­usi eft­ir um sex vik­ur og eiga sinn fyrsta fund með sól­inni sex vik­um síðar.

„Fyrstu mælingar fara svo fram eftir rétt rúmlega mánuð. Svo fáum við fyrstu niðurstöður eftir kannski einhverja mánuði. Það tekur sinn tíma að afla gagna og vinna úr þeim,“ segir Sævar.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert