Unglingar sem reykja og drekka áfengi eru í meiri hættu á að fá hjarta- og blóðrásarsjúkdóma og er hættan þegar til staðar um 17 ára aldur. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem BBC fjallar um. Einkenni æðakölkunar koma fljótt í ljós en ef unglingar hætta að reykja og drekka áfengi verða slagæðar þeirra eðlilegar að nýju.
„Til hjarta- og æðasjúkdóma teljast sjúkdómar í slagæðum líkamans og eru þeir yfirleitt af völdum æðakölkunar. Slagæðar flytja blóð mettað súrefni og næringu til vefja líkamans. Við æðakölkun þrengjast æðarnar og minna magn blóðs kemst til vefjanna. Það leiðir til súrefnisskorts á viðkomandi svæðum, segir á Vísindavef Háskóla Íslands um æðakölkun. Æðakölkun eykur hættu á heilablóðfalli og hjartaáföllum síðar á lífsleiðinni.
Rannsóknin nær til heilsufarsupplýsinga um 1.266 ungmenna frá árinu 2004 til 2008 og eru niðurstöður hennar birtar í European Heart Journal.
Þátttakendur héldu utan um reykingar og áfengisneyslu sína á aldrinum 13, 15 og 17 ára og síðan voru gerðar blóðprufur til þess að kanna hvort þeir væru með æðakölkun. Haldið var utan um hversu margar sígarettur viðkomandi reykti á dag og á hvaða aldri áfengisneysla hófst.
Þeir sem höfðu reykt meira en 100 sígarettur og áttu til að verða ofurölvi voru líklegri til þess að fá æðakölkun en þeir sem höfðu reykt lítið og drukkið lítið. Eins ef viðkomandi hætti neyslu á áfengi og hætti að reykja ungur að árum gekk æðakölkunin til baka.