Ríki Evrópu standa vel að vígi í heilbrigðismálum, samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, þar sem fjallað er um markmið heilbrigðisstefnu stofnunarinnar, sem nær til ársins 2020.
Engu að síður eru nokkur viðvörunarmerki á lofti, einkum hvað varðar tóbaksreykingar og áfengisneyslu en Evrópubúar neyta langmests af hvoru tveggja, auk þess sem þróunin er sú að offita og yfirþyngd séu að verða algengari meðal Evrópubúa, ekki síst ungmenna.
Á meðal markmiða WHO er að það dragi úr fjölda þeirra sem deyi fyrir aldur fram vegna fjögurra helstu sjúkdómanna sem ekki eru smitandi, en það eru hjarta- og æðasjúkdómar, krabbamein, sykursýki og krónískir öndunarfærasjúkdómar.
Meðal þeirra áhættuþátta sem stofnunin kannaði í tengslum við það markmið var tóbaksneysla ungmenna á aldrinum 11, 13 og 15 ára, en mjög mismunandi var eftir ríkjum álfunnar hversu hátt hlutfall ungmenna reykti á þessum aldri. Ísland var þó eitt af sjö ríkjum Evrópu þar sem tóbaksneysla 11 ára barna mældist engin, en í Grikklandi og Ísrael voru allt að 9% drengja á þessum aldri sem neyttu tóbaks vikulega.
Annar áhættuþáttur var offita og yfirþyngd meðal ungmenna, en tölur stofnunarinnar benda til þess að það sé að verða algengara að börn og ungmenni séu yfir kjörþyngd samkvæmt BMI-stuðli.
Þannig kom í ljós að nærri því 17,5% stúlkna og 26,8% ellefu ára drengja voru yfir kjörþyngd árið 2014. Íslensk ungmenni voru þar undir meðaltali, en samkvæmt tölum stofnunarinnar voru um 14% stúlkna og rúmlega 23% drengja á þessum aldri yfir kjörþyngd.
Þegar Ísland er borið saman við hin löndin á Norðurlöndum í þessum aldursflokki voru einungis finnsk ungmenni með hærra hlutfall en Íslendingar. Þó má nefna að á Grænlandi voru um 28% stúlkna og 39% drengja á 11 ára aldri yfir kjörþyngd, og var það hæsta hlutfallið í Evrópu. Dönsk ungmenni voru hins vegar með lægsta hlutfallið í öllum aldursflokkum.
Meðal 13 ára ungmenna í Evrópu voru 15% stúlkna og 23,4% drengja yfir kjörþyngd. Íslenskir drengir á þessum aldri voru þar svipaðir og meðaltalið, en um 16% íslenskra stúlkna á þessum aldri reyndust yfir kjörþyngd.
Þá var að lokum athugað hvernig staðan væri meðal 15 ára ungmenna, en að meðaltali voru 12,4% stúlkna í Evrópu og 21,6% drengja á þessum aldri yfir kjörþyngd. Íslensk ungmenni voru hins vegar nokkuð yfir þessu meðaltali hjá báðum kynjum, en 18% íslenskra stúlkna og 23% íslenskra drengja á 15 ára aldri voru sögð yfir kjörþyngd í mælingum WHO.
Þróunin á Íslandi er því jákvæð að því leyti til, að færri ungmenni reynast yfir kjörþyngd í yngri aldursflokkunum sem kannaðir voru en í þeim eldri, öfugt við þróunina víðsvegar annars staðar í Evrópu.