Vísindamenn leggja til miklar framkvæmdir neðansjávar við Suðurskautslandið til að varna því að Thwaites-jökull, sem gæti orðið að ísjaka á stærð við Bretland, brotni frá og fljóti út á haf. Losni jakinn og bráðni gæti sjávarborð hækkað um nokkra metra, samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar.
Tvær hugmyndir hafa komið fram um hvernig koma megi í veg fyrir að jökullinn sigli út á haf. Sú hófsamari er engu að síður af þeirri stærðargráðu að hún jafnast á við gerð Panamaskurðar eða Súezskurðar. Í henni felst að gera jarðvegshóla á hæð við Eiffelturninn á sjávarbotni. Þeir eiga að styðja við jökulbrúnina sjávarmegin.
Hinn valkosturinn er að ryðja upp um 100 metra háum garði, eða vegg, á sjávarbotni. Garðurinn yrði 80 til 100 kílómetra langur og myndi koma í veg fyrir að hlýr sjór kæmist undir íshelluna, bræddi hana neðan frá og veikti.
Greint var frá þessum metnaðarfullu áformum í The Cryosphere, tímariti European Geosciences Union, á fimmtudaginn var. Greinin þykir endurspegla þau viðhorf að það að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, svo gott sem það er, gerist líklega ekki nógu hratt til að koma í veg fyrir stórkostlegar loftslagsbreytingar sem myndu hafa hörmulegar afleiðingar.
Haft er eftir aðalhöfundi greinarinnar, Michael Wolovick, vísindamanni við Princeton-háskóla, að Thwaites-jökull geti verið upphafið að bráðnun sem á endanum muni hækka sjávarborð á heimsvísu um nálægt þrjá metra.
Það að draga úr kolefnismengun mun ekki duga til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingarnar. Einu trúverðugu leiðirnar til þess að tryggja að hlýnun verði innan við tvö stig á Celsíus, miðað við hitastig fyrir iðnvæðingu, eins og stefnt er að með Parísarsáttmálanum, er að draga mikið magn koltvísýrings (CO2) út úr andrúmsloftinu. Verkfræðileg áform, sem áður var hafnað vegna þess að þau væru óhagkvæm, óþörf eða beinlínis hættuleg, eru ekki lengur á jaðri vísindalegrar og pólitískrar umræðu heldur orðin ofarlega á baugi. Á meðal þeirra má nefna að dreifa ögnum í geimnum sem endurkasta geislum sólar, geyma CO2 í berglögum eða hefja stórfellda ræktun til framleiðslu á lífeldsneyti. Engar þessara hugmynda taka á hækkandi sjávarborði en það mun líklega valda meiri hörmungum fyrir mannkynið en nokkur önnur áhrif loftslagshlýnunarinnar. Tugir eyríkja gætu farið meira eða minna í kaf og einnig þéttbyggðar óseyrar, einkum í Asíu og Afríku.
Wolovick segir að heimsbyggðin þurfi að huga vandlega að verkfræðilegum lausnum varðandi jöklana. Hundruð milljóna manna búi á svæðum sem séu fáeina metra ofan við sjávarborð. Þar til nýlega hækkaði sjávarborð aðallega vegna aukinnar þenslu vatns af völdum hlýnunar. Nú stafar helsta ógnin af bráðnun Grænlandsjökuls og íssins á suðurskautinu. Bráðni Grænlandsjökull og jökullinn á Vestur-Suðurskautslandinu, sem er hættara við bráðnun en jöklinum á Austur-Suðurskautslandinu, myndi yfirborð sjávar hækka um nálægt 12 metra.