WOW nýtir eldsneyti betur en Icelandair

WOW air nýtir eldsneytið töluvert betur en Icelandair.
WOW air nýtir eldsneytið töluvert betur en Icelandair. Samsett mynd

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar á vegum samtakanna ICCT þar sem lagt var mat á hvaða flugfélög nýta þotueldsneytið best miðað við fjölda farþega og fluglengd, í flugi á milli Evrópu og Norður-Ameríku, er flugfélagið WOW air öðru sæti á eftir Norwegian. En WOW er með þrettán prósent lakari nýtingu en norska flugfélagið. Frá þessu er greint á vefnum Túristi.is

Litið var til 20 af þeim flugfélögum sem eru stórtækust í flugi milli Evrópu og Norður-Ameríku, en íslensku flugfélögin Icelandair og WOW eru bæði umsvifamikil á þeim markaði.

Í umfjöllun Túrista segir að nýtingin hjá Icelandair sé í meðallagi af flugfélögunum 20 sem voru mæld. Þotur Icelandair þurfi 29 prósent meira eldsneyti á hvern floginn kílómetra en þotur Norwegian og 15 prósent meira en WOW air.

„Uppistaðan í flota flugfélagsins eru Boeing 757-þotur sem eru orðnar rúmlega 20 ára. Meðalaldur flugvélanna sem WOW air nýtir er um þrjú ár. Þess er getið í skýrslu ICCT að eldsneytisnýtingin hjá Icelandair ætti að lækka á næstu árum með tilkomu nýrra Boeing MAX-þota sem félagið er nú að taka í notkun. Þær eyða um fjórðungi minna en gömlu þoturnar.“

Fram kemur að betri nýting á eldsneyti skrifist þó ekki bara á aldur hreyfla og flugvéla, þótt sá þáttur vegi þyngst, eða 39 prósent. Þar á eftir kemur fjöldi sæta um borð, en Þeim mun meira bil sem er á milli sæta því verri verður eldsneytisnýtingin og því koma stóru evrópsku flugfélögin, British Airways og Lufthansa, illa út úr samanburðinum enda þau vinsæl hjá þeim sem vilja mikið pláss um borð.

„Fá stór sæti með mikið sætabil á viðskiptafarrými um borð í þotum Norwegian og WOW air er því ein af ástæðum þess að flugfélögin tróna á toppnum samkvæmt því sem segir í skýrslu ICCT.  Forstjóri WOW hefur reyndar boðað aukna áherslu á stór sæti, svokölluð Comfy- og Premium-sæti.“

Þá segir að sætanýting og þyngd á frakt skýri um 28 prósent af heildarnýtingu olíunnar sem dælt er á þoturnar sem fljúga milli Evrópu og Norður-Ameríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka