Lamaður gengur á ný

Mayo Clinic í New York.
Mayo Clinic í New York.

29 ára gamall Bandaríkjamaður náði fyrr á árinu að ganga á ný, fimm árum eftir að hann lamaðist fyrir neðan mitti, með aðstoð örflögu sem grædd var í bakið á honum.

Greint var frá þessu í tímaritinu Nature í gær, en hópur lækna við Mayosjúkrahúsið ritaði þar grein um rannsóknir sínar.

Örflagan, sem er á stærð við AArafhlöðu, sendir rafboð niður í taugar sem ekki hafa lengur tengingu við heilann og ýtir við þeim. Hún var grædd í manninn árið 2016 og þurfti hann að ganga í gegnum heilmikla endurhæfingu áður en árangur kom í ljós. Á endanum gat hann þó látið heilann senda skilaboð niður í fæturna um að hreyfast og gekk hann í kjölfarið vegalengd sem nemur einum bandarískum ruðningsvelli, að vísu með aðstoð göngugrindar.

Greinarhöfundar tóku fram að maðurinn sinnti enn daglegum störfum sínum með aðstoð hjólastóls og hann gæti ekki gengið þegar slökkt væri á örflögunni. Engu að síður væri hér sterk vísbending um að lömun eftir mænuskaða þyrfti ekki að vera varanleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert