Varar við óhugnanlegum fyrirætlunum Google

Kona gengur hjá skilti Google á gervigreindarráðstefnu í Sjanghæ í …
Kona gengur hjá skilti Google á gervigreindarráðstefnu í Sjanghæ í Kína. AFP

Fyrrverandi starfsmaður Google-netrisans varar, í bréfi til bandarískra þingmanna, við „óhugnanlegum“ fyrirætlunum fyrirtækisins í Kína, að því er BBC greinir frá.

Jack Poulson var hátt settur í rannsóknadeild Google, þar til hann sagði upp störfum í ágúst sl. Í bréfi sínu kveðst hann óttast fyrirætlanir Google, sem hann segir nú vinna að þróun kínversks forrits sem hefur vinnuheitið Drekaflugan og á að geta aðstoðað kínversk stjórnvöld við að ritskoða Kínverja og fylgjast með athöfnum þeirra í netheimum.

Meðal þeirra orða sem sögð eru vera á svarta listanum, sem unninn sé að kröfu kínverskra stjórnvalda, eru „mannréttindi“, „stúdentamótmæli“, „Nóbelsverðlaun“ og fjölmargir frasar þar sem nafn Xi Jinping, forseta Kína, kemur fyrir.

BBC segir Google fullyrða að sú vinna sem fyrirtækið hafi til þessa unnið í Kína hafi verið í „könnunarskyni“.

„Allt sem við höfum gert til þessa eru nokkrar kannanir, en þar sem við höfum engar fyrirætlanir um að ræsa neitt er ekki mikið sem ég get sagt,“ hefur BBC eftir Ben Gomes, yfirmanni leitardeildar Google.

Fréttavefurinn The Intercept greindi í síðustu viku frá því að Google hefði skipað starfsfólki að eyða minnisblaði þar sem áætlanirnar voru ræddar, en hundruð Google-starfsmanna sendu í síðasta mánuði frá sér yfirlýsingu þar sem þeir fordæmdu Drekaflugu-verkefnið.

BBC segir Google ekki hafa tjáð sig um þá frétt en forsvarsmenn fyrirtækisins segist um árabil hafa unnið að því að aðstoða kínverska notendur við allt frá þróun Android-forrita, gerð á farsímaöppum eins og Google Translate og Files Go og forritunartækni.

Ekki standi hins vegar til að virkja nýja leitarvél í Kína á næstunni.

Í bréfi sínu nefnir Poulson nokkur þeirra atriða í starfi Google sem fjölmiðlar hafa þegar greint frá, en sem fyrirtækið hefur ekki viljað staðfesta. „Drekaflugan er hluti af breiðara mynstri óábyrgra ákvarðana sem teknar eru innan tækniiðnaðarins,“ skrifaði Poulson.

Bréfið verður tekið fyrir á fundi viðskiptanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings í dag, en meðal þeirra sem þar munu sitja fyrir svörum varðandi gagnaöryggi neytenda er Keith Enright, einn yfirmanna öryggismála hjá Google, sem og fulltrúar AT&T, Apple, Twitter og Amazon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert