Fjársjóður framtíðar verðlaunaður

Sjónvarpsþáttaröðin Fjársjóður framtíðar hlaut viðurkenningu Rannís 2018 fyrir vísindamiðlun, en þættirnir eru framleiddir af Háskóla Íslands fyrir RÚV.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti Jóni Erni Guðbjartssyni, markaðs- og samskiptastjóra Háskóla Íslands, viðurkenninguna við opnun Vísindavöku 2018 í Laugardalshöll í gær.

Fjársjóður framtíðar er langviðamesta verkefnið sem Háskóli Íslands hefur tekist á hendur til að miðla vísindum til almennings en skólinn leggur mikla áherslu á að miðla rannsóknum og mikilvægi vísinda og nýsköpunar til samfélagsins. Þáttaröðin hefur verið fastur liður í dagskrá RÚV frá árinu 2011 og hefur verið sýnd á Norðurlöndunum auk þess að keppa um gullverðlaun á einni elstu og virtustu vísindakvikmyndahátíð í Evrópu.

Markmið með þáttaröðinni um Fjársjóð framtíðar er að auka áhuga og þekkingu almennings á öllum aldri á vísindum og nýsköpun og að landsmenn skynji og skilji mikilvægi þessara þátta fyrir velferð samfélagsins.

Í takt við áherslu Vísindavöku Rannís er vísindafólkið sjálft í forgrunni í þáttunum, þar sem það miðlar rannsóknum sínum til almennings.

Óhætt er að segja að þættirnir hafi frá upphafi vakið gríðarlega athygli og að sú athygli hafi náði langt út fyrir landsteina. Þættirnir hafa verið kynntir sem einstakt verkefni í vísindamiðlun á Evrópuráðstefnu bandalags háskóla og æðri menntastofnana, á árvissri ráðstefnu EUPRIO, sem er félag samskiptafólks í evrópskum háskólum, á ráðstefnu UNICA, sem er samstarfsnet háskóla í evrópskum höfuðborgum, svo fátt eitt sé talið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert