Fyrstu ljónsungarnir þar sem notast var við glasafrjóvgun komu í heiminn í Ukutula-verndarmiðstöðinni í Suður-Afríku í síðasta mánuði. Um sögulegan áfanga er að ræða og vonast vísindamenn til þess að glasafrjóvgun geti nýst til að fjölga ljónum í útrýmingarhættu.
Ljónsungarnir tveir fæddust 25. ágúst síðastliðinn og braggast vel eins og sjá má á myndskeiðinu hér fyrir ofan.
Ljón eru útdauð í 26 ríkjum Afríku og í þeim ríkjum þar sem ljón lifa villt hefur þeim fækkað um 43% á síðustu tveimur áratugum. Aðeins eru um 20.000 ljón eftir í Afríku.
„Þetta eru svo sæt dýr, þau eru virkilega falleg. Ef við getum fengið almenning til að finna til samkenndar með dýrunum og taka þátt í verndarstarfinu þá held ég að þessi dýr eigi möguleika á að lifa af,“ segir Willi Jacobs, eigandi Ukutula-verndarmiðstöðvarinnar.