Að minnsta kosti 259 manns hafa látist við það að taka sjálfsmynd (selfie). Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem birt er í vísindatímaritinu Journal of Family Medicine og Primary Care. Það var læknavísindastofnunin All India sem gerði rannsóknina. Í rannsókninni var stuðst við upplýsingar um dauðsföll sem rakin eru til sjálfsmyndatöku á tímabilinu október 2011 til nóvember í fyrra.
Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarinnar verða flest dauðsföll af þessum völdum á Indlandi. Næst kemur Rússland, þar á eftir Bandaríkin og Pakistan. Flestir hinna látnu voru karlmenn og yngri en þrjátíu ára.
Á Indlandi einu saman urðu 159 dauðsföll á rannsóknartímabilinu sem rekja má til sjálfsmyndatöku. Skýringin er líklegast fólgin í því, að sögn vísindamannanna, að þar í landi er gríðarlegur fjöldi ungs fólks (undir þrítugu), sá mesti í heiminum.
Þó að konur taki fleiri myndir af sjálfum sér en karlar komust vísindamennirnir að því að karlarnir eru líklegri til að taka áhættu við slíka myndatöku, t.d. að standa á bjargbrún.