„Bregðist við núna, fábjánar“

Þetta er lokaviðvörunin eigi að takast að halda hlýnun jarðar undir 1,5°, segja vísindamenn í nýrri  og ítarlegri skýrslu um hættuna sem jörðinni stafar af hlýnun jarðar.

Miðað við núverandi þróun stefnir í 3° hlýnun og eigi að takast að halda hlýnun jarðar undir 1,5° þá er þörf á „hröðum, víðtækum og fordæmislausum breytingum á öllum hliðum þjóðfélagsins. Kostnaðurinn við slíkar aðgerðir verður líka verulega hár, að því er fram kemur í skýrslunni. Tækifæri til þess að spyrna við fótum sé hins vegar enn til staðar.

BBC segir að eftir þriggja ára rannsóknir og vikulangar deilur milli vísindamanna og embættismanna stjórnvalda á fundi í Suður-Kóreu, þá hafi lofts­lags­nefnd­ Sam­einuðu þjóðanna  IPCC, gefið út skýrslu sína þar sem varað er við áhrifum þess að hlýnun jarðar fari yfir 1,5°.

Þörf á fordæmislausum og kostnaðarsömum breytingum

BBC segir 33 blaðsíðna yfirlit skýrslunnar fyrir stjórnvöld vissulega bera merki erfiðra samningaviðræðna milli vísindamanna sem hafi verið staðráðnir í að halda sig við það sem fram komi í rannsóknum sínum og pólitískra fulltrúa sem hafi meiri áhyggjur af efnahagsmálum og lífsgæðum.

Þrátt fyrir óumflýjanlegar málamiðlanir komist sum skilaboðanna skýrt í gegn.

„Í fyrsta lagi er það að því fylgi margvíslegur ávinningur að takmarka hlýnun jarðar við 1,5° í stað 2°. Það dregur úr áhrifum loftslagsbreytinga á mjög mikilvæga vegu,“ hefur BBC eftir prófessor Jim Skea einum stjórnarformanna IPCC.

„Í öðru lagi eru það eðli þeirra fordæmislausu breytinga sem eru nauðsynlegar eigi okkur að takast að takmarka hlýnunina við 1,5°,“ bætti hann við. Það feli í sér breytingu á orkukerfum, breytingar á landnýtingu og samgöngum.

„Vísindamenn kynni að langa til að skrifa með hástöfum: „BREGÐIST VIÐ NÚNA, FÁBJÁNAR“, en þeir verða að segja það með staðreyndum og tölum,“ hefur BBC eftir Kaisa Kosonen einum fulltrúa Greenpeace sem var áhorfandi að samningaviðræðunum. „Og það hafa þeir gert.“

Reyk leggur frá orkuveri í Sofia í Búgaríu. Í skýrslunni …
Reyk leggur frá orkuveri í Sofia í Búgaríu. Í skýrslunni segir að þörf sé „hröðum, víðtækum og fordæmislausum breytingum á öllum hliðum þjóðfélagsins“ eigi að takast að halda hlýnun jarðar við 1,5° markmiðið. AFP

Teningakast með lífsskilyrði á jörðinni

Staðreyndir og tölur hafi verið notaðar til að draga upp mynd af heimi sem sé hættulega sjúkur af mannavöldum. Til þessa hafi hugsunin verið sú að takist okkur að halda hlýnun jarðar undir 2° á þessari öld, þá verði þær breytingar sem við upplifum af völdum hlýnunar jarðar viðráðanlegar.

Svo sé hins vegar ekki lengur. Samkvæmt nýju skýrslunni sé það teningakast með lífsskilyrði á jörðinni fari hlýnun jarðar upp fyrir 1,5°. Raunar sé hætta á að hlýnun jarðar verði komin upp fyrir 1,5° strax árið 2030, sem sé innan 12 ára,

Eigi að takast að halda hlýnun jarðar undir þessu markmiði sé þörf á brýnum, umfangsmiklum breytingum hjá stjórnvöldum og einstaklingum. Auk þess þurfi verulegra fjárfestinga við eigi þetta að takast, eða um 2,5% af vergri hnattrænni framleiðslu næstu tvo áratugina.

Jafnvel með þeirri fjárfestingu þurfi einnig við véla, trjáa og gróðurs til að binda koltvísiring úr andrúmsloftinu svo hægt sé að fanga hann og vista neðanjarðar það sem eftir er.

Með tárin í augum eftir kynninguna

Fari hlýnun jarðar svo mikið sem 0,5° umfram 1,5° markmiðið mun hættan á flóðum, öfgakenndum hitabylgjum, þurrkum, skógareldum og fátækt aukast verulega fyrir hundruð milljónir manna, að því er fram kemur í umfjöllun Guardian um skýrsluna. Segir Guardian raunar suma fundargesta þeirra 195 þjóða sem mættu á fund IPCC í Suður-Kóreu, hafa verið með tárin í augunum á meðan að aðrir hafi faðmast eftir kynninguna.

0,5° viðbótarhækkun kann einnig að leiða til þess að vissar kóraltegundir þurrkist út og eykur enn frekar á álagið á heimskautasvæðin.

„Þetta er lína í sandinum og hún segir okkar tegund að þetta sé stundin og við verðum að bregðast við núna,“ hefur Guardian eftir Debra Roberts, einum höfunda þess kafla skýrslunnar sem fjallar um áhrif breytinganna. „Þetta er háværasta viðvörunarbjalla vísindasamfélagið hefur hringt og ég vona að hún komi hreyfingu á fólk og dragi úr værukærninni.“

Skilti með orðunum „Ástæða til að vona“ var komið fyrir …
Skilti með orðunum „Ástæða til að vona“ var komið fyrir af aðgerðarsinnum Greenpeace, framan við ráðstefnumiðstöðina í Suður-Kóreu fyrir fundinn. AFP

Breikkandi gjá milli vísinda og stjórnmála

Stjórnvöld þeirra ríkja sem eiga aðild að loftslagssamkomulaginu fóru fram á gerð skýrslunnar á loftslagsfundinum í París 2016. Frá þeim tíma hefur gjáin milli vísindamanna og stjórnmálamanna hins vegar breikkað. Donald Trump  Bandaríkjaforseti hefur m.a. heitið því að segja Bandaríkin frá loftslagssamkomulaginu og í gær fór hægri öfgamaðurinn Jair Bolsonaro með sigur af hólmi í fyrstu umferð brasilísku forsetakosninganna. Bolsonaro hefur m.a. heitið því að opna á að regnskógar Amazon víki fyrir landbúnaðarrækt.

Hitastig á jörðinni er nú þegar 1° hlýrra en það var fyrir tíma iðnbyltingarinnar. Óvenjumiklir þurrkar í Höfðaborg í Suður-Afríku, ofsafengnir fellibyljir í Bandaríkjunum og skógareldar á norðurheimskautssvæðum eru, að því er fram kemur í skýrslu IPCC, skýr merki þess að áhrifa loftslagsbreytinga gætir nú þegar. Er í skýrslunni varað því því að hver einasta brotabrotshækkun til viðbótar geri áhrifin verri.

Vísindamenn rýndu vandlega í 6.000 rannsóknir sem vitnað var í í skýrslunni og segja það hafa verið opinberun hversu miklar breytingar gátu fylgt hálfrar gráðu hlýnun. „Við sjáum að það er munur og að hann er verulegur,“ sagði Roberts.

Hætta á verulegum lífríkisbreytingum

Takist að halda hlýnun jarðar við 1,5° viðmiðið verður sá hluti jarðarbúa sem býr við vatnsskort 50% lægri en fari hlýnunin upp 2°.  Matarskortur verður sömuleiðis minna vandamál og þeim fjölda íbúa í fátækari ríkjum, sem eru í hættu á að búa við fátækt tengda loftslagbreytingum, mun einnig fækka um hundruð milljónir.

Verulegar breytingar yrðu einnig á lífríkinu. Þannig eru næstum helmingi meiri líkur á að skordýr, sem eru mikilvæg fyrir frjóvgun uppskeru og plantna, missi um helming heimkynna sinna.

Hækkandi yfirborð sjávar vegna bráðnunar jökla, mun hafa áhrif á um 10 milljónir manna árið 2100 fari hlýnunin upp í 2°. Súrnun sjávar og minna súrefnismagn í hafinu verða einnig meiri við 2°.

Draga þarf úr koltvísiringsmengun um 45% fyrir 2030

Skýrslan verður kynnt á fundi Sameinuðu þjóðanna í Póllandi fyrir árslok, en í henni bendir IPCC á fjórar leiðir til að ná því markmiði að halda hlýnun jarðar við 1,5° . Í öllum þeirra leikur endurheimt skóga stórt hlutverk, sem og að breyta samgöngumátum á þá vegu að rafmagn leiki þar stærra hlutverk og að aukin áhersla sé lögð á tækni til að binda koltvísiring.

Draga þurfi úr koltvísiringsmengun um 45% fyrir 2030, í stað 20% líkt og 2° markmiðið geri ráð fyrir. Strax árið 2050 verði koltvísiringsmengun að vera orðin 0% í staðin fyrir að markmiðið náist 2075.

Eigi þetta að takast verði eldsneytisverð að vera þrisvar til fjórum sinnum hærra en þörf sé á miðað við 2° markmiðið. Kostnaðurinn við að gera ekkert sé hins vegar mun hærri.

„Við höfum kynnt stjórnvöldum nokkra erfiða kosti. Við höfum bent þeim á þann mikla ávinning sem felist í því að ná 1,5° markmiðinu og þá fordæmislausu breytingu sem þurfi að verða á orkukerfum og samgöngur eigi þetta að nást,“ sagði Skea. „Við höfum sýnt fram á með lögmálum eðlis- og efnafræði að þetta sé hægt. Lokasvarið er hinn pólitíski vilji. Við getum ekki svarað fyrir hann.“

Kóralrif í Nýju-Kaledóníu í Kyrrahafi. 2 ° hlýnun jarðar kann …
Kóralrif í Nýju-Kaledóníu í Kyrrahafi. 2 ° hlýnun jarðar kann að leiða til þess að vissar kóraltegundir þurrkist út. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert