Spænska veikin mikilvæg lexía fyrir faraldra framtíðar

Jean Lee, doktorsnemi við Melbourne-háskóla, skoðar bakteríu sem er ónæm …
Jean Lee, doktorsnemi við Melbourne-háskóla, skoðar bakteríu sem er ónæm fyrir sýklalyfjum. Slíkar bakteríur gætu dregið fólk til dauða í næsta heimsfaraldri infúensu. AFP

Þetta var sjúkdómurinn sem sýkti þriðjung mannkyns, felldi tugmilljónir manna og varð til þess að fólk um víða veröld taldi heimsendi í nánd, rétt í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar. Á Íslandi lét­ust um 500 manns. 

Nú öld eftir að inflúensan skæða sem fékk nafnið spænska veikin varð að faraldri segja vísindamenn að þó að margvíslegur lærdómur hafi verið dreginn af þessum banvænasta faraldri sögunnar sé heimsbyggðin enn illa undirbúin fyrir næsta heimsfaraldur.

Þeir segja að hætturnar felist m.a. í breyttri aldurssamsetningu þjóða, ónæmi fyrir sýklalyfjum og loftslagsbreytingum. Allt þetta gæti orðið til þess að magna upp faraldra framtíðar.

„Við stöndum nú frammi fyrir nýjum áskorunum, svo sem því að mannfjöldinn er að eldast og fólk er með undirliggjandi sjúkdóma svo sem offitu og sykursýki,“ segir Carolien van de Sandt, sem starfar við sóttvarna- og ónæmisdeild háskólans í Melbourne. 

Gæti fellt 150 milljónir manna

Vísindamenn spá því að næsti faraldur inflúensu, sem líklega verður af stofni fuglaflensu sem mun sýkja menn og breiðast hratt út um heiminn með flugferðalögum, muni verða allt að 150 milljónum manna að bana.

Van de Sandt og teymi hennar rannsökuðu gögn um spænsku veikina sem fór eins og eldur í sinu um heiminn árið 1918. Þau rannsökuðu einnig nýlegri faraldra, s.s. Asíuflensuna árið 1957, Hong Kong-flensuna árið 1968 og svínaflensuna árið 2009.

Næsti heimsfaraldur inflúensu gæti breiðst hratt út.
Næsti heimsfaraldur inflúensu gæti breiðst hratt út. AFP

Þau komust að því að þó að spænska veikin hafi smitað þriðjung mannkyns hafi margir hinna sýktu lifað af alvarlegar sýkingar og aðrir hafi aðeins fengið væg einkenni.

Ritskoðun í kjölfar heimsstyrjaldar

Stjórnvöld margra landa notuðu ritskoðun sem einkennt hafði síðari heimsstyrjöldina til að þagga niður fréttir af vírusnum lífshættulega. En þar sem Spánverjar höfðu verið hlutlausir í stríðinu voru sagðar margar fréttir um faraldurinn í spænskum fjölmiðlum sem varð til þess að margir töldu að sjúkdómurinn hefði átt upptök sín þar í landi og því fékk hann nafnið spænska veikin.

Nú er hins vegar almennt talið að stofn flensunnar árið 1918 megi rekja til bandarískra hermanna og að hann hafi lagst óvenjuþungt á hermenn og ungt fólk. En vísindamenn telja að næsta alvarlega flensa muni haga sér öðruvísi. 

Árið 1918 var heimsbyggðin að takast á við efnahagsleg áhrif heimsstyrjaldar og varð flensan því banvænni en ella þar sem vannæring var útbreidd.

Vísindamenn sem birta nýja rannsókn sína í Journal Frontiers in Cellular and Infection Microbiology segja að næsti faraldur muni breiðast út um hinn vestræna heim meðal þjóða sem glíma við offitu og sykursýki sem aldrei fyrr.

Vísindamennirnir rannsökuðu m.a. svínaflensufaraldurinn árið 2009 til að leggja mat …
Vísindamennirnir rannsökuðu m.a. svínaflensufaraldurinn árið 2009 til að leggja mat á flensufaraldra framtíðar. AFP

„Það sem við lærðum af faraldrinum árið 2009 er að fólk með ákveðna sjúkdóma (svo sem offitu og sykursýki) var mun líklegra bæði til að leggjast inn á sjúkrahús og til að deyja úr inflúensunni,“ segir Kirsty Short, sérfræðingur við Háskólann í Queensland.

Vannæring og ofnæring

Vísindamannateymið varar við því að tvöföld byrði hvíli á heimsbyggðinni: Annars vegar alvarlegir sjúkdómar vegna vannæringar í fátækari ríkjum og hins vegar vegna ofnæringar og sjúkdóma sem henni tengjast meðal ríkari þjóða.

Hlýnun jarðar gæti svo haft áhrif með ýmsum hætti.

Van de Sandt segir að þar sem margir stofnar inflúensu búi fyrst um sig í fuglum gæti hlýnandi loftslag breytt því hvar næsti faraldur mun eiga upptök sín. „Loftslagsbreytingar gætu breytt farflugi fugla og flutt mögulega vírusa sem valda faröldrum til nýrra staða og einnig mögulega í fleiri fuglategundir,“ segir hún. 

Eitt af því sem rannsókn á spænsku veikinni árið 1918 leiddi í ljós var að eldra fólk veiktist síður af vírusnum en ungmenni. Kenning vísindamannanna er sú að eldri borgarar hafi byggt upp ónæmi gegn vírusnum eftir að hafa fengið aðrar sýkingar á yngri árum.

Flestir létust vegna bakteríusýkinga

Flestir þeirra sem létust árið 1918, um 50 milljónir manna eða um 2,5% af þeim sem sýktust, létust vegna bakteríusýkinga sem þeir fengu í kjölfarið en slíkt hefur síðar verið hægt að koma í veg fyrir með sýklalyfjum.

En í dag eru margar bakteríur orðnar ónæmar fyrir sýklalyfjum. „Þetta eykur hættuna á því að fólki muni veikjast og deyja vegna bakteríusýkinga í næsta faraldri,“ segir Katherine Kedzierska, sem starfar við Doherty-stofnunina í Melbourne.

Breytt farflug fugla vegna lofslagsbreytinga gæti haft áhrif á útbreiðslu …
Breytt farflug fugla vegna lofslagsbreytinga gæti haft áhrif á útbreiðslu næsta heimsfaraldurs. AFP

Höfundar rannsóknarinnar óttast sérstaklega fuglavírusinn H7N9 sem drepur um 40% þeirra manna sem af honum sýkjast. Enn sem komið er smitast hann ekki manna á milli.

„Í augnablikinu hefur enginn þessara vírusa hæfni til þess að smitast á milli fólks en við vitum að vírusinn þarf aðeins að breytast lítillega til að það gerist og að annar inflúensufaraldur gæti orðið,“ segir van de Sandt.

Allt annar veruleiki en 1918

 Heimurinn hefur breyst mikið frá árinu 1918. Í dag eru jarðarbúar yfir sjö milljarðar. Þar má finna risaborgir og ferðalög fólks hafa aldrei verið meiri. Vísindamennirnir segja að ráðamenn geti dregið mikinn lærdóm af spænsku veikinni.

Vírusar sem valda heimsfaröldrum eru frá náttúrunnar hendi óútreiknanlegir. Ef yfirvöld vissu fyrir víst hvaða flensa væri í uppsiglingu gætu þau fjárfest í nothæfu bólefni. En á meðan bóluefni sem virkar gegn öllum stofnum inflúensu er ekki til verða yfirvöld, að sögn van de Sandt, að upplýsa almenning um hættuna á faraldri og við hverju er að búast við slíkar aðstæður.

Mæla þeir með því að ríkisstjórnir nýti sér mátt netsins við að koma viðvörunarorðum og upplýsingum til skila til sem flestra. „Mikilvægur lærdómur af inflúensufaraldrinum árið 1918 er að vel undirbúin aðgerðaráætlun getur bjargað mörgum mannslífum,“ segir van de Sandt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka