Hálfrar aldar gömul plastflaska eins og ný

Plastflaskan kom líklega á markað fyrir meira en 47 árum.
Plastflaskan kom líklega á markað fyrir meira en 47 árum. Ljósmynd/Facebook

Plastflösku, sem er að minnsta kosti 47 ára gömul, skolaði á land á strönd í Bretlandi. Hún var enn svo vel farin að lesa mátti á umbúðirnar. Fundurinn er umhugsunarverður þar sem plastrusl í hafinu er nú gríðarlegt.

Það var strandvörður í Somerset sem fann flöskuna og í tilkynningu frá strandgæslunni í Brunham segir að flaskan hafi verið „nánast eins og ný“. Segir enn fremur í tilkynningu að starfsmönnum strandgæslunnar hafi brugðið við að sjá hversu miklu rusli skoli að ströndinni. „Það er áfall að sjá hversu lengi rusl getur haldist heilt [í sjónum] og skaðað náttúruna.“

Flaskan sem um ræðir innihélt eitt sinn uppþvottalög og í honum var efni sem var bannað árið 1971 og því er það mat manna að flaskan sé að minnsta kosti 47 ára gömul.

Í frétt Guardian um málið segir að sumt plast sé allt að 450 ár að brotna niður í náttúrunni. Í Bretlandi einu saman falla til um 170 milljónir tonna af rusli. Stór hluti þess eru umbúðir af ýmsu tagi. Aðeins þriðjungur plasts sem til fellur er endurunninn.

Í fréttinni kemur einnig fram að smáar plastagnir hafi m.a. fundist í skelfiski, kranavatni, hunangi, sykri og borðsalti. Enn er lítið vitað um áhrif þess á menn og dýr að innbyrða örplast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka