Hybrid-tækni ryður sér til rúms

Jón Halldór Arnarson drónasérfræðingur hefur að undanförnu unnið að hönnun …
Jón Halldór Arnarson drónasérfræðingur hefur að undanförnu unnið að hönnun og smíði nýs dróna. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er hybrid-dróni og sennilega sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi. Dróninn er smíðaður fyrir stórgripa- og hreindýrasmölun, en einnig er hugmyndin sú að nýta tækið við leitarstörf og þá með hitamyndavél,“ segir drónasérfræðingurinn Jón Halldór Arnarson í samtali við Morgunblaðið, en hann var fyrstur Íslendinga til að ná sér í meistaragráðu í drónaverkfræði, frá háskólanum í Southampton, og býr auk þess að réttindum til að fljúga stórum ómönnuðum flugfartækjum í atvinnuskyni.

Dróninn sem Jón Halldór hefur sett saman og hannað er engin smásmíð, en tækið býr yfir sex öflugum mótorum og er heildarbreidd drónans 2,36 metrar. Alls vegur flygildið 22 kíló með fullum tanki af eldsneyti. „Hann er því í stærri kantinum þessi,“ segir Jón Halldór og heldur áfram: „Undir drónanum er myndavél, með 10x stækkun, en við stefnum að því að skipta þeirri myndavél út fyrir aðra með 36x stækkun og innrautt ljós. Hún fer samt ekki undir alveg strax.“

Ný tækni - stóraukið flugþol

Spurður hver sérstaða þessa dróna sé umfram aðra segir Jón Halldór það vera flugþolið. „Þetta tæki býður upp á möguleika sem aldrei hafa sést áður. Undir drónanum er rafall sem býður upp á þessa hybrid-lausn. En tæknin er í raun bara sex mánaða gömul því fram til þessa hefur ekki verið hægt að setja bensínmótor á dróna vegna mikils víbrings frá mótorunum,“ segir hann og bætir við að þessi samnýting rafmagns og jarðefnaeldsneytis í drónatækni bjóði upp á stóraukið flugþol. „Fyrir vikið getur hann flogið í allt að fjórar klukkustundir og hefur drægni frá 20 kílómetrum og upp í 60 kílómetra.“

Jón Halldór segir hönnun drónans enn í fullum gangi. „Hann verður áfram í þróun út árið. Hugmyndin er meðal annars sú að dróninn þoli betur mismunandi veðráttu og verði þannig að hægt sé að nota hann í öllum aðstæðum,“ segir hann.

Áhugasamir geta virt þennan glæsilega dróna fyrir sér í Laugardalshöll …
Áhugasamir geta virt þennan glæsilega dróna fyrir sér í Laugardalshöll um helgina. Dróninn hybrid-tækni til að stórauka flugþol, mbl.is/Árni Sæberg

Verður til sýnis um helgina

Að baki hönnun og smíði drónans er fyrirtækið UAS Resource Support sem er í eigu Jóns Halldórs, Stefáns Magnasonar, hreindýrabónda á Grænlandi, og Ingvars Garðarssonar fjárfestis. „Staðið hefur til að prófa drónann við raunverulegar aðstæður, meðal annars á Grænlandi, en það hefur aftur á móti ekki tekist enn. Stefnt er þó að því að prófunum ljúki á næstu mánuðum og gefst þá tækifæri til að leigja tækið til dæmis í hreindýra- eða stórgripasmölun,“ segir Jón Halldór og bendir á að menn hafi lengi notað þyrlur við smölun. Dróni sé hins vegar mun ódýrari möguleiki. „Menn gætu þá leigt drónann í verkið og greitt fyrir daginn svipað verð og þyrla kostar á klukkutímann.“

Þá er vert að benda áhugasömum á að dróni Jóns Halldórs og félaga verður til sýnis á landbúnaðarsýningunni sem haldin verður í Laugardalshöll í Reykjavík dagana 12. til 14. október næstkomandi. Verður hægt að skoða og fræðast nánar um tækið á bás fyrirtækisins Dronefly sem sérhæfir sig í sölu og viðgerðum á drónum fyrir áhugafólk og fagmenn hér á landi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert