Syndandi djúpsjávarsæbjúga náðist nýverið á mynd í fyrsta sinn í Suðurhafi við austurhluta Suðurskautslandsins. Þykja myndirnar nokkuð merkilegar þar sem dýrið lifir á mikilli dýpt og hefur áður aðeins náðst á mynd í Mexíkó-flóa, samkvæmt BBC.
Tegundin gengur undir latneska heitinu Enypniastes eximia, en djúpsjávardýrið ber einnig vinsæla gælunafnið „headless chicken sea monster“. Má reikna með að gælunafnið stafi af því að einhverjir kunna að sjá eitthvað líkt milli dýrsins og hauslausrar hænu.
Upplýsingar frá neðansjávarmyndavélum munu vera sendar stofnun um verndun sjávarlífs og auðlinda við Suðurskautslandið (e. Commission for the Conservation of Antarctic Marine Living Resources). Stofnunin annast umsjón með Suðurhafinu sem umliggur Suðurskautslandið.