Plast orðið hluti af fæðukeðjunni

PET-plastefni fannst gjarnan í hægðum fólksins sem tók þátt í …
PET-plastefni fannst gjarnan í hægðum fólksins sem tók þátt í rannsókninni. AFP

Plastagnir fundust í hægðum fólks frá Evrópu, Rússlandi og Japan í lítilli rannsókn sem gerð var á átta sjálfboðaliðum og gefa niðurstöðurnar vísbendingu um að plast sé orðið hluti af fæðukeðjunni.

Plastagnir fundust í hægðum allra þátttakenda og var magn plasts að meðaltali um 20 agnir í hverjum 10 grömmum af hægðum. Plastagnirnar voru misjafnar að stærð, eða allt frá 50 upp í 500 míkrómetrar, og eru taldar hafa komist í meltingarkerfi sjálfboðaliðanna í gegnum sjávarfang, matarumbúðir, ryk og plastflöskur. Til stærðarsamanburðar er eru hár venjulega um það bil 50 til 100 míkrómetrar að stærð.

Plastið sem fannst í hægðum fólksins var af mismunandi tegundum, en þær algengustu voru fjölprópýlen (PP), sem notað er í tappa, reipi og bindingar, og pólýetýlenterefþalat (PET), sem notað er í plastflöskur og textílefni.

Vísindamönnunum sem að rannsókninni stóðu tókst ekki að finna tengsl á milli mismunandi mataræðis og magns plastagna í hægðum fólksins og því má gera ráð fyrir því að plast sé orðið hluti af fæðukeðju mannsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert