Fólk sem býr í köldu loftslagi og fær litla sól er líklegra til þess að drekka mikið áfengi. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem fjallað er um á vef BBC.
Bandarískir vísindamenn hafa fundið tengsl milli meðalhita, sólskinsstunda og neyslu áfengis. Tölur frá 193 löndum sýna fram á að að veðurfar hefur mikil áhrif þegar kemur af ofdrykkju og skorpulifur. Skoskur læknir sem BBC ræddi við hvetur til þess að reglum varðandi áfengisauglýsingar verði breytt yfir vetrarmánuðina þar í landi.
Einn af höfundum rannsóknarinnar, Ramon Bataller, aðstoðarframkvæmdastjóri rannsóknarstofnunar í lifrarsjúkdómum í Pittsburgh, segir að þetta sé fyrsta rannsóknin sinnar tegundar sem skoðar kerfisbundið upplýsingar um áfengisneyslu víða um heim. Þar sem kaldara er í veðri og lítil sól drekkur fólk meira áfengi og þar er skorpulifur algengari.
Áfengisneysla tengist einnig þunglyndi sem er algengara þar sem sólar nýtur minna. Niðurstöður rannsóknarinnar eru birtar í Hepatology-tímaritinu og eru notaðar upplýsingar frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) auk fleiri upplýsinga við vinnsluna.