Fjölgun hleðslustöðva nauðsyn

Þórður Þorsteinsson, rafmagnstæknifræðingur hjá Verkís, segir að fjölga þurfi hleðslustöðvum …
Þórður Þorsteinsson, rafmagnstæknifræðingur hjá Verkís, segir að fjölga þurfi hleðslustöðvum rafbíla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nauðsynlegt er að fjölga hleðslustöðvum til að ná orkuskiptamarkmiðinu segir Þórður Þorsteinsson, rafmagnstæknifræðingur hjá Verkís, í ljósi þess að rafmagnsbílum hefur fjölgað um 34% og tengilbílum fjölgað um 29% frá 2017 til 2018. Þá segir hann að einnig megi fjölga rafbílum meðal bílaleigubíla. 

Á Keflavíkurflugvelli eru 14 hleðslutenglar á langtímastæðum, sex slíkir á starfsmannastæðum og ein hraðhleðslustöð á skammtímastæði. Víðs vegar um landið hefur hleðslustöðvum fjölgað en nágrannalönd Íslands hafa sótt vel fram í þessum efnum að því er fram kemur í erindi Þórðar á ráðstefnunni Orkuskipti: þáttur fluggeirans sem fram fór í Orkugarði í dag.

Þá segir hann einnig að fjölga þurfi rafbílum meðal bílaleigubíla. „Icelandair Hotel hyggst koma fyrir hleðslu fyrir viðskiptavini, svo hægt er að sækja fram á þessu sviði,“ segir Þórður. Alls kyns samgöngur koma að fluggeiranum og þá ekki síst ökutæki á og í kringum flugvelli.  

Á Charlotte Douglas-alþjóðaflugvellinum (CLT) í Bandaríkjunum var ákveðið að notast einungis við rafknúin tæki á hlaði en þar er lögð rík áhersla á upplifun viðskiptavina og ímynd flugvallarins.

„Hugmynd sem vert er að skoða er að rafvæða flugvallarúturnar, þar sem þær eru mikið í lausagangi myndi það minnka mengun á flugvellinum talsvert,“ segir Þórður.

Hleðslutími rútanna er 30 mín. til 8 klst.
Hleðslutími rútanna er 30 mín. til 8 klst. Mynd/Verkís

Í Evrópu, Asíu, Norður- og Suður-Ameríku er víða notast við rafknúnar rútur og strætó en Finnar standa einkum framarlega í innleiðingu rafknúinna strætisvagna. Til samanburðar er Strætó hér á landi með níu rafknúna vagna en við bætast fimm rafknúnir vagnar á næsta ári.

Öll flugvélastæði tengd rafmagni

Valur Klemensson, deildarstjóri umhverfisdeildar hjá Isavia, sagði á fundinum í dag, að markmið Isavia í loftslagsmálum væri að öll flugvélastæði við flugstöð yrðu tengd rafmagni árið 2018.

„Við erum alltaf að skoða hvað við getum gert til þess að draga úr losun þegar vélarnar eru á jörðu niðri,“ segir Valur.  

Í erindi hans segir að margvíslegur ávinningur muni hljótast af tengingu flugvélastæða við eldsneytiskerfi en það feli í sér minni umferð eldsneytisbíla og þar með minni útblástur og mengun.

Í aðgerðaáætlun Isavia í loftlagsmálum kemur fram að fyrirtækið hyggist kaupa rafmagns-, tvinn- eða metanbíla í að minnsta kosti 70% tilfella, í þeim stærðarflokkum þar sem slíkir kostir bjóðast, að undangengnu mati frá og með 2018. 

Þá er einnig gert ráð fyrir fjölgun rafhleðslustöðva í takt við spurn eftir þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert