Samsöfnun gróðurhúsalofttegunda, sem valda loftslagsbreytingum og hækkandi hitastigi í heiminum, náði nýjum hæðum í fyrra. Fram kemur í skýrslu Alþjóðaveðurfræðistofnunar Sameinuðu þjóðanna (WMO) að ekki sé útlit fyrir breytingu.
Í skýrslunni kemur fram að koltvísýringur í andrúmslofti hafi aukist í fyrra en hann hefur ekki verið meiri í þrjár til fimm milljónir ára. Styrkur koltvísýrings mældist vera um 405 ppm (e. parts per million) í heiminum.
„Vísindin hafa sýnt fram á að ef ekki verður dregið úr koltvísýringi og öðrum gróðurhúsalofttegundum munu loftslagsbreytingar hafa mikil áhrif á líf á jörðinni og valda eyðileggingu. Tíminn til að bregðast við er nánast runninn út,“ segir Petteri Taalas, framkvæmdastjóri WMO.
Skýrslan ýtir undir þær rannsóknir vísindamanna að loftslagsbreytingar hækka sífellt hitastig jarðar og færast fyrir vikið sífellt nær því að verða óafturkræfar.
„Fyrir þremur til fimm milljónum ára, þegar svipaðar breytingar urðu á koltvísýringi, var hitastigið á jörðinni tveimur til þremur gráðum hærra en en í dag og yfirborð sjávar tíu til tuttugu metrum hærra,“ bætti Taalas við.
Elena Manaenkova, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, segir að niðurstaðan komi henni ekki á óvart og að engin töfralausn sé í boði. Hún hafi miklar áhyggjur af aukningu koltvísýrings í andrúmsloftinu og telur að aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum hafi ekki verið teknar nógu alvarlega.