Minjarnar sem fundust við fornleifarannsókn á Bæ, Sandvík á Ströndum, gefa fræðimönnum færi á að fylla í eyðurnar sem til staðar eru í landnámi Íslands. Þannig virðast svæði sem teljast oftar en ekki afar óhentug til landbúnaðar hafa verið numin tiltölulega snemma, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá aðstandendum uppgraftrarins.
Fornleifarannsóknirnar fóru fram í ágúst á þessu ári á vegum Fornleifastofnunar Íslands og Háskólans í Björgvin, sem jafnframt styrktu rannsóknina.
Verkið var unnið í samstarfi við Bergsvein Birgisson, rithöfund og fræðimann, en upphaf rannsóknarinnar má rekja til þess er bein sáust í rofi við sjávarbakka í Sandvík. Samkvæmt rannsókn Minjastofnunar Íslands var um að ræða öskuhaug og eftir að bein úr haugnum hafði verið sent í aldursgreiningu kom í ljós að það var frá 9. eða 10. öld.
Ekki liggur enn fyrir hvers konar búseta var í víkinni, en auk ruslahaugsins fannst þar mannvirki sem bendir til árstíðarbundinnar búsetu.
Markmið rannsóknarinnar í sumar var að kanna hvort fleiri mannvirki leyndust í víkinni, ásamt því að rannsaka ruslahauginn í rofinu og aldursgreina hann. Voru fjögur bein send í kolefnisaldursgreiningu og reyndust þau öll vera frá seinni hluta 9. aldar eða 10. öld, sem gefur til kynna að þarna hafi fólk komið þegar á landnámsöld. Auk aldursgreininga voru bein úr haugnum greind til tegunda og reyndist þar mikið um fiska- og fuglabein, auk beina úr sjávarspendýrum ásamt svína-, kinda- og geitabeinum.
Ruslahaugurinn var fyrir ofan timburboli og timburplanka sem voru einstaklega vel varðveittir. Talið er að þeir séu hluti af mannvirki en ekki er ljóst hvers konar mannvirki og er því þörf á frekari rannsóknum að því er fram kemur í tilkynningunni þar sem mörgum spurningum sé enn ósvarað í Sandvík.
Frekari rannsóknir eru þá sagðar geta aukið skilning á landnámi Íslands, ástæðum þess og aðbúnaði landnema. Áhugavert sé að sjá út frá fengnum aldursgreiningum að búseta í Sandvík virðist hafa lagst af þegar á 10. öld, sem samræmist því að engar sagnir fara af landnámsbænum, hvorki skráðar né í munnlegri geymd.